LeBron James skoraði ótrúlega sigurkörfu

LeBron James ræðir við þjálfara sinn Mike Brown.
LeBron James ræðir við þjálfara sinn Mike Brown. Aaron Josefczyk

LeBron James tryggði Cleveland Cavaliers nauman sigur gegn Orlando Magic í öðrum leik liðanna í úrslitum Austurdeildar í NBA-deildinni í nótt. James tók þriggja stiga skot þegar 1 sekúnda var eftir í stöðunni 95:93 fyrir Orlando og fór skotið beint ofaní. Lokatölur 96:95 og er staðan jöfn, 1:1, en Orlando leikur næstu tvo leiki á heimavelli sínum. 

Stuðningsmenn Cleveland Cavaliers muna margir eftir því þegar Michael Jordan tryggði Chicago Bulls sigur gegn Cleveland í úrslitum Austurdeildar með ótrúlegu skoti á síðustu sekúndu árið 1989. Sá sigur tryggði Bulls sæti í úrslitum NBA-deildarinnar og sagði James í leikslok að nú væri annað skot frá  leikmanni nr. 23 sem stuðningsmenn Cleveland ættu eftir að muna eftir. 

Skotið frá James var ótrúlegt. Hann var beint fyrir framan körfuhringinn töluvert fyrir utan þriggja stiga línuna þegar hann fékk boltann. Hann stökk upp og tyrkneski landsliðsmaðurinn Hedo Turkoglu reyndi að stöðva skotið en án árangurs. Turkoglu hafð rétt áður komið Orlandi tveimur stigum yfir með góðu skoti. 

„Ég heyrði bara öskrin í stuðningsmönnum okkar og þeir áttu það skilið að boltinn fór ofaní. Þetta er mesta afrek mitt á ferlinum að setja þetta skot ofaní og þessi eina sekúnda var lengi að líða en þegar maður er krakki þá tekur maður svona skot á hverjum degi og tryggir sínu liði sigur í huganum,“ sagði James í leikslok.

Rashard Lewis var stigahæstur í liði Orlando með 23 stig en LeBron James skoraði 35 stig fyrir Cleveland. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert