Kobe Bryant skoraði „aðeins“ 22 stig og tók 13 skot í 103:94 sigri LA Lakers gegn Denver Nuggets í úrslitum Vesturdeildar NBA körfuboltans í nótt. Staðan er 3:2 fyrir Lakers og þarf liðið aðeins einn sigur til viðbótar til þess að tryggja sér sæti í úrslitum gegn Orlando eða Cleveland.
Lamar Odom skoraði 19 stig og tók 14 fráköst í liði Lakers og Spánverjinn Pau Gasol skoraði 14 stig og tók 10 fráköst. Í upphafi fjórða leikhluta skoraði Lakers 11 stig í röð og náðu leikmenn Denver ekki að brúa það bil. Næsti leikur fer fram í Denver en þar tapaði Lakers með 19 stiga mun í fjórða leiknum.
Carmelo Anthony skoraði 31 stig fyrir Denver og hitti hann úr 12 af alls 13 vítaskotum sínum í leiknum. Kenyon Martin og Chauncey Billups skoruðu 12 stig hvor fyrir Denver.