Hvaða Lakerslið mætir gegn Orlando?

George Karl þjálfari Denver óskar Kobe Bryant til hamingju með …
George Karl þjálfari Denver óskar Kobe Bryant til hamingju með sigurinn í sjötta leik liðanna. Reuters

Eftir skemmtilega og spennandi úrslitakeppni er nú ljóst að Los Angeles Lakers og Orlando Magic munu kljást um meistaratitilinn í NBA deildinni þegar liðið hefja keppni hér í Englaborg á fimmtudag. Þetta verður í þrítugasta skipti sem Lakers leikur um meistaratitilinn, en Magic er í úrslitunum aðeins í annað skipti.

Orlando tapaði 4:0 gegn Houston Rockets árið 1995, en þá réðu Galdramennirnir ekkert við Hakeem Olajuwon hjá Rakettunum.

Það voru loksins „góðu" Lakers-mennirnir sem komu til leiks í sjötta leik úrslitarimmur Vesturdeildarinnar í Klettafjallaborginni Denver á föstudag. Kobe Bryant viðurkenndi á blaðamannafundi nýlega eftir tap Lakers gegn Houston Rockets að liðið hefði tvo persónuleika. Hér í bæ hefur það almennt verið þýtt af sporteðjótum sem dæmi um að annaðhvort kæmi „góða" eða „slæma" Lakers-liðið leiks hverju sinni.

Í Denver mætti „góða" Lakers-liðið til leiks og er skemmst frá því að segja að heimamenn áttu ekkert svar við stórleik Lakers, sem lék besta leik sinn í úrslitkeppninni. Lokatölurnar voru 119:92 fyrir Lakers og vann Los Angeles þar með lokaleikseríu Vesturdeildarinnar 4:2.

Liðið sýndi í þessum leik að vonir þær sem gerðar voru til þess eftir deildakeppnina velta á því hvaða persónuleiki liðsins mætir til leiks hverju sinni. Stundum lítur Lakers út sem meistaralið. Í öðrum leikjum eins og samblanda af góðum leikmönnum sem nenna ekki að berjast fyrir sigrinum.

Kobe Bryant var að venju stigahæstur gestanna með 35 stig, en samherjar hans voru óvenju atkvæðamiklir í leiknum og þegar svo er verður erfitt fyrir önnur lið að vinna Lakers.

„Denver er gott lið sem gerði okkur lífið leitt í leikseríunni. Við urðum því að treysta á samheldnina ef við ætluðum okkur sigurinn. Ég held að þessi leiksería eigi eftir að koma okkur til góða í lokaúrslitunum," sagði kappinn í leikslok.

Það reyndist erfiðara fyrir Englabúa að komast í Lokaúrslitin í ár en í fyrra, en það kann að koma liðinu til bóta nú. Þegar Lakers mætti Boston Celtics fyrir ári síðan virtust leikmenn liðsins ekki tilbúnir barningnum sem til tók að vinna meistaratitilinn. Eftir rimmurnar gegn Houston og Denver Nuggets er engin afsökun fyrir „góða" Lakers-liðið að sitja heima þegar leikirnir hefjast.

Denver getur vel við unað. Ekki var búist við miklu af liðinu í vetur, en eftir að Chauncey Billups kom til liðsins á miðju keppnistímabilinu snerist liðinu allt í haginn. Eftir frábæran leik í fyrstu umferðunum bjuggust margir við að Morlarnir myndu slá út Lakers. Sú reyndist ekki raunin, en hér er traustur leikmannahópur sem gæti náð langt í framtíðinni.

Howard með stórleik

Eftir frækilega sigurgöngu undanfarin tvö ár í Austurdeildinni kom loks að því að stórleikir LeBron James voru ekki nóg til að koma Cleveland Cavaliers í lokaúrslitin. James hefur átt hvern stórleikinn af fætur öðrum undanfarið, en í úrslitum Austurdeildarinnar gegn Orlando var það ekki nóg - samherjar hans voru einfaldlega ekki nægilega góðir til að komast í lokabaráttuna.

Sjötti leikur Orlando og Cleveland fór fram í Amway íþróttahöllinni í Disneyheimi á laugardagskvöld. Þessi leikur þróaðis svipað og leikur Denver gegn Los Angeles. Orlando náði frumkvæðinu strax í leiknum og hélt forystunni allan leikinn. Heimamenn innbyrtu öruggan sigur í lokin, 103:90, og unnu leikseríuna fjóra leiki gegn tveimur.

Dwight Howard, miðherji Orlando, átti sinn besta leik í úrslitkeppninni með 40 stig og 14 fráköst. Hann er nú orðin stórstjarna í deildinni og gæti reynst miðherjum Lakers erfiður.

Orlando fékk Howard í háskólavalinu fyrir fimm árum eftir að liðið hafði versta vinninshlutfallið í deildinni. „Það hlógu allir þegar ég sagði að ég mundi vinna meistaratitil með þessu liði. Ég meina allir! Við höfum hinsvegar byggt upp gott lið hér og samherjar mínir voru vel með á nótunum í kvöld," sagði Howard á blaðamannafundi eftir leik.

Sigur Orlando í leikseríunni gegn Cleveland kom sannarlega á óvart. LeBron James og félagar rúlluðu yfir Detroit og Atlanta í fyrstu tveimur umferðunum án þess að tapa og virtust liðið í leikformi til að vinna meistaratitilinn. Gegn góðum leik Orlando átti liðið hinsvegar aldrei svar og þrátt fyrir hvern stórleik James af fætur öðrum vantaði honum einfaldlega meiri stuðning samherja sinna þegar á reið gegn Orlando.

Kobe Bryant í harkalegu návígi við Linas Kleiza, leikmann Denver.
Kobe Bryant í harkalegu návígi við Linas Kleiza, leikmann Denver. Reuters
Rafer Alston og Anthony Johnson, leikmenn Orlando, fagna sigrinum á …
Rafer Alston og Anthony Johnson, leikmenn Orlando, fagna sigrinum á Cleveland um helgina. Reuters
Dwight Howard hefur leikið frábærlega með Orlando í úrslitakeppninni.
Dwight Howard hefur leikið frábærlega með Orlando í úrslitakeppninni. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka