Sænska körfuknattleiksliðið Solna hefur rætt við Sigurð Ingimundarson landsliðsþjálfara og þjálfara úrvalsdeildarliðs Keflavíkur með það fyrir augum að fá sem þjálfara fyrir næstu leiktíð. Sigurður staðfesti í samtali við mbl.is að hafa fengið tilboð frá félaginu og það myndi skýrast á næstu dögum hvort hann tæki því eða ekki.
,,Menn frá Solna höfðu samband við mig nýlega og ég mun heyra betur í þeim í vikunni. Ég ætla að kanna með jákvæðum huga og fer ekkert leynt með það að ég hef stefnt á að komast einhvern tímann til útlanda að þjálfa og Svíþjóð gæti verið fínn staður til að byrja á,“ sagði Sigurður í samtali við mbl.is í morgun.
Solna varð í öðru sæti í sænsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en liðið hampaði meistaratitlinum á síðasta ári og hefur verið í fremstu röð undanfarin ár. Finninn Pekka Salminen hefur stýrt liðinu undanfarin ár en hann hefur ákveðið að hætta.