Ísland vann í dag góðan útisigur á Danmörku, 66:54, í fyrsta leik sínum í seinni hluta B-deildar Evrópukeppninnar í körfuknattleik og endurtók þar með leikinn frá því í Laugardalshöll fyrr í keppninni. Fylgst var með gangi mála í textalýsingu hér á mbl.is.
Jón Arnór Stefánsson var stigahæstur Íslendinga með 21 stig og Logi Gunnarsson gerði þrettán. Þá gerði Páll Axel Vilbergsson tíu stig og tók sjö fráköst.
Ísland er þar með komið með sjö stig í riðlinum en Danir hafa sex og eru í neðsta sæti.
Íslensku strákarnir byrjuðu leikinn ögn betur og var það Páll Axel Vilbergsson sem gerði fyrstu stigin með þriggja stiga körfu. Ísland hafði yfir 13:6 eftir rúmar fjórar mínútur og náði mest níu stiga forskoti í fyrsta leikhluta í stöðunni 18:9. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var hins vegar 23:16 Íslandi í vil og voru þeir Páll Axel og Jón Arnór Stefánsson stigahæstir með 8 stig hvor.
Íslandi tókst að auka muninn í fimmtán stig um miðjan 2. leikhluta en þá var staðan 33:18. Danirnir söxuðu hins vegar á eftir því sem nær dró hálfleik og höfðu minnkað muninn aftur niður í sjö stig þegar kom að honum en þá var staðan 35:28. Páll Axel og Jón Arnór höfðu þá gert tíu stig hvor fyrir Ísland, Logi Gunnarsson sex, Hörður Axel Vilhjálmsson fimm og þeir Pavel Ermolinskij og Helgi Már Magnússon tvö hvor.
Danir náðu að minnka muninn niður í eitt stig í stöðunni 39:38 um miðjan þriðja leikhluta en eftir að staðan hafði verið 44:42 þá tóku íslensku strákarnir við sér og gerðu átta stig í röð áður en Danir gerðu síðustu tvö stig leihlutans og staðan því 52:44 fyrir lokaleikhlutann.
Ísland hélt forystunni í síðasta leikhlutanum og hafði yfir 60:52 þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Liðið hélt svo forystunni og landaði glæsilegum sigri, 66:54.