Hlé var gert á leik San Antonio Spurs og Sacramento Kings aðfaranótt sunnudags þar sem að leðurblaka flögraði um í keppnishöllinni og truflaði leikmenn. Argentínumaðurinn Manu Ginobili sýndi að hann hræðist ekki leðurblökur og sló hann leðurblökuna niður með vinstri og leikurinn gat því haldið áfram.
San Antonio sigraði 113:94 og skoraði Ginobili 13 stig í leiknum. Leikmenn beggja liða klöppuðu Argentínumanninum lof í lófa og áhorfendur einnig. Eflaust verður Ginobili nefndur „Leðurblökumaðurinn“það sem eftir lifir leiktíðar í NBA.
„Mér fannst þetta ekkert merkilegt, en þegar maður er hættur að geta troðið í leikjum þá verður maður að gera eitthvað annað til þess að komast í sjónvarpið,“ sagði Ginobili í leikslok en kvikmyndatónlist úr Batman var leikinn honum til heiðurs í keppnishöllinni.
„Þetta var ótrúlegt og goðsögnin um Manu heldu áfram. Hann er alltaf að gera eitthvað ótrúlegt,“ sagði franski landsliðsmaðurinn Tony Parker um liðsfélaga sinn.