Sigurganga Suns heldur áfram

Steve Nash.
Steve Nash. Reuters

Phoenix Suns heldur áfram sigurgöngu sinni í NBA deildinni í körfubolta en liðið lagði Philadelphia 76‘ers 119:115 á útivelli í nótt. Jason Richardson skoraði 29 stig fyrir Suns og Steve Nash bætti við 21 stig og hann gaf 20 stoðsendingar í leiknum og er það í annað sinn á tímabilinu sem hann nær 20 stoðsendingum í leik.

Suns hefur skorað yfir 100 stig í átta leikjum í röð og það hefur ekki gerst frá því á tímabilinu 1990-1991.  Andre Iguodala skoraði 24 stig fyrir heimaliðið og Marreese Speights var með 20 stig.

Leikmenn Golden State Warriors tóku létta skotæfingu gegn Minnesota en þeim leik lauk með 146: 105 sigri Golden State en þetta var aðeins annar sigurleikur liðsins í sex leikjum. Kelenna Azubuike skorðai 31 stig fyrir Golden State.

Carlos Boozer og  Andrei Kirilenko  skoruðu 23 stig hvor í 95:93 sigri Utah Jazz á útivelli gegn New York Knicks.  Þetta er fyrsti sigur Utah í fimm ár í Madison Square Garden.  Deron Williams leikstjórnandi Utah skoraði aðeins 5 stig en hann gaf  16 stoðsendingar. Það gengur ekkert hjá Knicks en liðið hefur aðeins unnið einn leik og tapað sjö. Nýliðinn Toney Douglas skoraði 21 stig fyrir Knicks.

Varnarleikur var ekki áhersluatriði í leik San Antonio Spurs gegn Toronto Raptors en alls 255 stig voru skoruð í 131:124 sigri Spurs. Manu Ginobili skoraði 36 stig fyrir Spurs sem lék án Tim Duncan og Tony Parker. Richard Jefferson skoraði 24 stig fyrir heimamenn og George Hill skoraði 22 stig.

Chris Bosh skoraði 32 stig og tók 9 fráköst fyrir Raptors en þetta er í þriðja sinn á þessari leiktíð þar sem hann skorar 30 stig eða meira.

New Orleans Hornets hafði betur gegn LA Clippers 112:83 á útivelli. Devin Brown skoraði 23 stig fyrir Hornets

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert