Njarðvíkingar enn ósigraðir

Friðrik Stefánsson verður í baráttunni með Njarðvíkingum í Hveragerði í …
Friðrik Stefánsson verður í baráttunni með Njarðvíkingum í Hveragerði í kvöld. mbl.is/Sverrir

Hamar og Njarðvík áttust við í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í Hveragerði klukkan 19:15. Njarðvíkingar sigruðu 100:89 en nýliðarnir veittu þeim mótspyrnu og voru yfir í hálfleik 50:45. Njarðvíkingar hafa unnið alla sex leiki sína en Hamar er með þrjá sigra og þrjú töp. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Andre Dabney var lang stigahæstur hjá Hamri með 40 stig og fór á kostum í fyrri hálfleik. Magnús Gunnarsson var mjög drjúgur fyrir Njarðvík og skoraði 32 stig.

40. Njarðvíkingar lönduðu sigri 89:100 og eru enn ósigraðir í deildinni.

38. Staðan er 84:95. Njarðvíkingar eru að landa sigri án teljandi vandræða í þessum síðasta leikhluta og þeirra sjötti sigur í jafn mörgum leikjum innan seilingar.

36. Staðan er 72:85 fyrir Njarðvík og ljóst hvert stefnir. Marvin er kominn með 5 villur hjá Hamri. Magnús Gunnarsson er búinn að bæta við 5 stigum og er búinn að skora 27 stig, þar af eru 6 þriggja stiga körfur.

33. Staðan er 72:80. Magnús Gunnarsson er búinn að setja niður tvær þriggja stiga körfur í röð af löngu færi.

31. Staðan er 67:72. Ragnar var að fá sína fimmtu villu og kemur ekki meira við sögu. Slæm mistök hjá dómurum leiksins því Marvin braut af sér en ekki Ragnar. 

30. Staðan er 64:70. Njarðvíkingar eru því með ágætt forskot fyrir síðasta leikhlutann. Ef Dabney hrekkur hins vegar í gang eins og hann gerði í fyrri hálfleik þá gætu heimamenn klárlega landað stigunum. Rúnar Ingi Erlingsson er kominn með 5 villur hjá Njarðvík.

28. Staðan er 59:64. Njarðvíkingar eru skrefinu á undan og hefur tekist að halda Dabney niðri sem hefur ekki skorað í 3. leikhluta. Miðherjinn Ragnar Nathanaelsson er kominn með 4 villur hjá Hamri.

25. Staðan er 56:60. Magnús var að skora þriggja stiga körfu og Njarðvíkingar virðast vera á réttri leið.

23. Staðan er 52:53 fyrir Njarðvík sem hafa því skorað 8:2 í upphafi síðari hálfleiks. Nokkur hiti er í leikmönnum beggja liða eftir hléið og virðast dómarar leiksins, Rögnvaldur og Björgvin, vera að missa tökin á leiknum. Litlu munaði að upp úr syði á milli Dabney og Magnúsar.

20. Staðan er 50:45 þegar flautað hefur verið til leikhlés. Þrátt fyrir slæma byrjun hjá Hamri þá hefur þeim tekist að snúa blaðinu við og eru yfir. Það skyldi þó aldrei fara svo að topplið Njarðvíkur myndi tapa sínum fyrsta leik á tímabilinu gegn nýliðunum í Hveragerði? Hamar byggir leik sinn reyndar á mun færri leikmönnum og því gætu Njarðvíkingar átt meira eftir á bensíntanknum þegar líða tekur á leikinn. Andre Dabney hefur skorað 24 stig fyrir Hamar en Magnús Gunnarsson og Guðmundur Jónsson eru stigahæstir hjá Njarðvík með 10 stig.

17. Staðan er 42:40. Leikurinn virðist vera í jafnvægi eins og er eftir sviptingarnar sem á undan eru gengnar.

14. Staðan er 32:31. Dabney er búinn að koma heimaliðinu yfir í fyrsta skipti í leiknum. Ótrúlegur viðsnúningur í upphafi 2. leikhluta.

13. Staðan er 30:31. Bandaríski leikstjórnandinn Andre Dabney er búinn að kveikja heldur betur í áhorfendum og liðsfélögum sínum. Hann er kominn með 17 stig og þar af eru 10 í upphafi annars leihluta. Stórskemmtilegur leikmaður þar á ferð.

10. Staðan er 18:29 þegar fyrsta leikhluta er lokið. Njarðvíkingar hafa refsað Hvergerðingum þegar þeim hefur orðið á mistök. Hamar þarf að fækka mistökunum ef þeir ætla að hanga í Njarðvík því toppliðið er fljótt að refsa.

8. Staðan er 15:21. Njarðvík komst í 8:21 þegar Magnús Gunnarsson setti niður aðra þriggja stiga körfu sína í leiknum. Ágúst þjálfari Hamars tók leikhlé og hans menn svöruðu með því að skora 7 stig í röð. Andre Dabney gerði 5 þeirra og er með 7 stig.

5. Staðan er 6:15. Toppliðið sýnir nýliðunum enga miskunn og eru strax búnir að ná sér í 9 stiga forskot. Það stefnir í villuvandræði hjá heimamönnum ef fram heldur sem horfir því Marvin og Ragnar eru báðir komnir með 2 villur. 

3. Staðan er 4:9.  Gestirnir frá Njarðvík byrja betur á upphafsmínútunum en spennustigið virðist nokkuð hátt hjá heimamönnum og þeir hafa ekki náð að ljúka öllum sínum sóknum með skottilraun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert