Snæfell lagði FSu, 107:74, í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Iceland Express deildinni í kvöld en leikið var í Stykkishólmi. Leikmenn Snæfells voru með örugga forystu allan leikinn og voru m.a. 22 stigum yfir í hálfleik, 49:27. Snæfell er þar með kominn með átta stig að loknum sex leikjum í deildinni en FSu rekur enn lestina í deildinni án stiga ásamt Fjölni. Athygli vekur að Brynjar Karl Sigurðsson hefur dregið fram keppnisskóna á nýjan leik eftir að hafa þurft að hreinsa til í herbúðum FSu í vikinni.
Brynjar Karl, sem er 36 ára, var stigahæsti maður liðsins að þessu sinni með 20 stig. Næstur honum kom Dominoc Baker með 18 stig, Corey Lewis gerði 12 stig og nýi leikmaðurinn í herbúðum FSu, Aleksas Zimnickas gerði 11 stig og tók níu fráköst. Zimnickas er 203 cm hár Lithái.
Stigaskorun heimamanna dreifðist vel í kvöld en Pálmi Freyr Sigurgeirsson var þeirra stigahæstur með 19 stig, þar af 16 í fyrri hálfleik. Hlynur Bæringsson gerði 16 stig og þeir Jón Ólafur Jónsson og Emil Jóhannsson gerðu 15 stig hvor.