Fjölnir og KR áttust við í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í Grafarvogi klukkan 19:15. Íslandsmeistarar KR sigruðu örugglega 100:71 og hafa unnið 5 af fyrstu 6 leikjum sínum í deildinni en nýliðar Fjölnis hafa tapað öllum 6 leikjum sínum. Fylgst er með gangi mála hér á mbl.is.
Semaj Inge var stigahæstur KR-inga með 24 stig og Chris Smith skoraði annað eins fyrir Fjölni.
40. LEIK LOKIÐ. KR-ingar sigruðu örugglega og rufu 100 stiga múrinn. Lokatölur 71:100.
38. Staðan er 70:89 fyrir KR. Fjölnismönnum tókst aðeins að rétta sinn hlut og minnkuðu muninn niður í 15 stig en leikurinn er nú að fjara út án mikilla tilþrifa.
32. Staðan er 54:77 fyrir KR og ljóst hvert stefnir. Leikstjórnandinn Semaj Inge er búinn að skora 22 stig fyrir KR og er stigahæstur á vellinum.
30. Staðan er 52:70 fyrir KR þegar einungis síðasti leikhlutinn er eftir. Ekki er útlit fyrir mikla spennu á lokamínútunum en gæðamunurinn á liðunum virðist einfaldlega vera of mikill.
26. Staðan er 45:58 fyrir KR. Smá líf í Fjölnismönnum núna og ef þeim tekst að minnka muninn niður fyrir 10 stig fyrir síðasta leikhlutann þá gætu þeir strítt KR-ingum.
23. Staðan er 37:55 fyrir KR. Síðari hálfleikurinn byrjar á svipuðum nótum og sá fyrri endaði. Fjölnismenn hafa ekki náð að taka almennilegar rispur þar sem þeir saxa að ráði á forskot KR.
20. Staðan er 32:44 fyrir KR þegar flautað hefur verið til leikhlés. KR-ingar virðast vera með góð tök á leiknum. Fannar Ólafsson er kominn með 12 stig hjá KR og Christopher Smith er einnig með 12 stig hjá Fjölni.
15. Staðan er 23:32 fyrir KR. Fjölnismenn minnkuðu muninn niður í 4 stig með þriggja stiga körfu frá Árna Þór Jónssyni 23:27 en KR-ingar svöruðu með fimm stigum í röð.
10. Staðan er 17:21 fyrir KR að loknum fyrsta leikhluta. Sóknarleikur liðanna gengur ágætlega og leikmenn hafa fengið fín skotfæri. KR-ingar eru með frumkvæðið og vilja sjálfsagt reyna að hrista Fjölnismenn af sér fyrir hlé.
3. Staðan er 7:9 fyrir KR. Leikurinn er í jafnvægi til þess að byrja með. Chris Smith er búinn að stimpla sig inn hjá Fjölni og er kominn með 4 stig.
0. Steinar Kaldal er í leikmannahópi KR á ný en hann meiddist í fyrsta leik mótsins. Steinar gekk á ný til liðs við KR-inga í sumar og ætti að styrkja varnarleik liðsins til mikilla muna.