Houston Rockets gerði sér lítið fyrir í nótt og lagði meistaralið Los Angeles Lakers á útivelli, 101:91, í NBA-deildinni í körfuknattleik. Aaron Brooks átti stærstan þátt í því, með sinni bestu frammistöðu á ferlinum til þessa.
Bakvörðurinn Brooks skoraði 33 stig í Staples Center, þar af 15 með 3ja stiga skotum, og setti persónulegt met í deildinni. Nýliðinn David Andersen átti líka sinn besta leik til þessa og skoraði 19 stig.
„Þetta var frábær leikur. Allur seinni hálfleikurinn var stórkostlegur hjá okkur," agði Rick Adelman, þjálfari Houston, sem hefur nú unnið sex af fyrstu tíu leikjum sínum á tímabilinu.
Kobe Bryant yfirgaf völlinn seint í leiknum vegna nárameiðsla en hann náði sér ekki á strik, hitti afar illa og skoraði aðeins 18 stig fyrir Lakers.
Úrslitin í nótt:
Detroit - Dallas 90:95
Oklahoma City - LA Clippers 93:101
Phoenix - Toronto 101:100
LA Lakers - Houston 91:101