ÍR-ingar töpuðu í kvöld fyrir Snæfell 72:92 í Iceland Express deildinni í kvöld en leikurinn fór fram í íþróttahúsi kennaraháskólans. ÍR-ingar misstu Hólmara fram úr sér í 3. leikhluta.
„Við höfðum spilað fína svæðisvörn í 2. leikhluta og unnum þá upp þann mun sem myndaðist í 1. leikhluta. Síðan náðu þeir einhvern veginn að finna opnu skotin í 3. leikhluta og settu allt niður. Ekki bara einn eða tveir leikmenn heldur voru 4 eða 5 menn að setja skotin niður hjá þeim. Við áttum bara í erfiðleikum með að stoppa skytturnar. Ég var sáttur við vörnina í 2. leikhluta og hélt að þetta væri að smella hjá okkur. Þessir 5 eða 6 þristar sem þeir settu niður í 3. leikhluta voru of stór biti fyrir okkur að kyngja því þá var munurinn orðin 20 stig eða svo,“ sagði Steinar Arason ÍR-ingur í samtali við mbl.is að leiknum loknum.
Fjallað er um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.