Keflavík hafði betur í grannaslagnum gegn Grindavík

Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði 22 stig fyrir Keflavík gegn Grindavík.
Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði 22 stig fyrir Keflavík gegn Grindavík. mbl.is/Golli

Keflavík hafði betur í grannaslag gegn Grindavík í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í kvöld 97:89. ÍR fór á Selfoss og vann þar stórsigur á botnliði FSu 83:59. Keflvíkingar eru komnir upp að hlið Njarðvíkinga á toppi deildarinnar en þeir síðarnefndu eiga leik til góða. Grindvíkingar eru hins vegar í 6. sæti með 50% vinningshlutfall. ÍR er í 7. sæti og FSu á botninum.

Keflvíkingar höfðu frumkvæðið lengst af gegn Grindavík og unnu verðskuldað. Spennan var þó meiri en úrslitin gefa til kynna. Í stöðunni 92:89 gátu Grindvíkingar jafnað en þá var um mínúta eftir af leiknum. Páll Axel Vilbergsson reyndi þriggja stiga skot en það gekk ekki og þar með runnu möguleikar Grindvíkinga út í sandinn. Sverrir Sverrisson skoraði frá miðju þegar lokaflautið gall og innsiglaði þannig sigur Keflvíkinga.

Sverrir gerði 21 stig fyrir Keflavík eins og Rashon Clark en Hörður Axel Vilhjálmsson var stigahæstur með 22 stig. Darrel Flake skoraði mest fyrir Grindavík eða 31 stig en Brenton Birmingham kom næstur með 17 og Páll Axel gerði 13.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert