Cleveland Cavaliers fékk ekki á sig eitt einasta stig í framlengingu þegar liðið vann góðan útisigur á Sacramento Kings, 117:104, í NBA-deildinni í nótt. Staðan var 104:104 eftir venjulegan leiktíma.
LeBron James átti stórleik með Cleveland og náði "tvöfaldri þrennu" en hann skoraði 34 stig, tók 16 fráköst og átti 10 stoðsendingar. Nýliðinn Tyreke Evans skoraði 28 stig fyrir Sacramento, þar af 24 í þremur fyrstu leikhlutunum. Þá ákvað Mike Brown þjálfari Cleveland að þagga niður í honum, lét LeBron James gæta hans það sem eftir var leiksins og það reið baggamuninn.
J.R. Smith skoraði 41 stig fyrir Denver Nuggets í sigri á Atlanta Hawks, 124:104, og Kevin Durant skoraði 38 stig fyrir Oklahoma City Thunder sem vann óvæntan útisigur á Phoenix Suns, 117:113.
Úrslitin í nótt:
Orlando - Houston 102:87
Detroit - Toronto 64:94
Miami - Utah 80:70
New Jersey - Minnesota 99:103
Milwaukee - Washington 97:109
New Orleans - Golden State 108:102
San Antonio - Portland 94:98
Denver - Atlanta 124:104
Phoenix - Oklahoma City 113:117
Sacramento - Cleveland 104:117 (framlenging)
Leikmenn NBA-deildarinnar eiga frí á aðfangadagskvöld en leikið er að nýju að kvöldi jóladags.