Atlanta Hawks lagði Boston Celtics að velli í þriðja skipti í jafnmörgum leikjum á þessu tímabili þegar liðin mættust í stórleik í Austurdeild NBA í körfuknattleik í nótt. Atlanta vann góðan sigur í Boston, 102:96.
Það voru þeir Joe Johnson og Jamal Crawford sem fyrst og fremst tryggðu Atlanta sigurinn en þeir voru illviðráðanlegir í fjórða leikhluta. Johnson gerði þá m.a. sjö stig í röð og 36 alls í leiknum, og Crawford lék frábærlega í vörninni allan tímann auk þess að skora grimmt á lokakaflanum. Rajon Rondo var atkvæðamestur hjá Boston með 26 stig en liðið saknaði Rasheed Wallace sem er meiddur.
LeBron James skoraði 37 stig fyrir Cleveland Cavaliers sem vann nauman útisigur á Golden State Warriors, 117:114. James gerði 15 af 18 síðustu stigum Cleveland og fór þá illa með Corey Maggette, sem annars var stigahæstur hjá Golden State með 32 stig.
Cleveland er nú á toppi Austurdeildar með 75 prósent árangur, Boston er með 72,2, Orlando 67,6 og Atlanta er í fjórða sætinu með 64,9 en þessi fjögur lið skera sig talsvert úr í deildinni og slást greinilega um fjögur efstu sætin það sem eftir er vetrar.
Úrslitin í nótt:
Indiana - Toronto 105:101
Philadelphia - New Orleans 96:92
Boston - Atlanta 96:102
Chicago - Detroit 120:87
Oklahoma City - New York 106:88
Denver - Minnesota 105:94
Phoenix - Milwaukee 105:101
Utah - Miami 118:89
Golden State - Cleveland 114:117