Páll Axel Vilbergsson jafnaði stigamet í efstu deild karla hjá íslenskum leikmönnum þegar hann skoraði 54 stig í 124:85 sigri Grindvíkinga gegn Tindastóli á sunnudag. Valur Ingimundarson og Páll Axel deila nú metinu fyrir íslenska leikmenn en Bandaríkjamaðurinn John Johnson á stigametið, 71 stig, frá því í nóvember 1979.
„Ég hef lítið velt þessu fyrir mér á undanförnum árum, en ég skoraði 41 stig þegar ég var 18 ára og Jón Kr. Gíslason var með okkur í Grindavík,“ sagði Páll Axel við Morgunblaðið í gær þegar hann var inntur eftir því hvort hann hefði vitað af tilvist stigamets Vals Ingimundarsonar. Páll Axel lék í 35 mínútur af alls 40 en til samanburðar lék Valur í 55 mínútur þegar hann skoraði 54 stig fyrir Tindastól í 141:134 tapleik gegn Haukum árið 1988.
Sjá nánar viðtal við Pál Axel og umfjöllun um stigametin í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.