San Antonio Spurs er á mikilli siglingu í NBA-deildinni í körfuknattleik þessa dagana og undirstrikaði það í nótt með stórsigri á meisturum Los Angeles Lakers, 105:85.
Lið Lakers var reyndar vængbrotið því Pau Gasol missti af fimmta leiknum í röð og Kobe Bryant fór af velli seint í þriðja leikhluta vegna bakmeiðsla en hann hafði þá ekki reynt eitt einasta skot allan seinni hálfleikinn. Þetta var þriðja tap Lakers í þeim fimm leikjum sem Gasol er ekki með liðinu.
Tim Duncan skoraði 25 stig fyrir San Antonio og Tony Parker 22, auk þess sem varamenn liðsins gerðu heil 33 stig í leiknum. Andrew Bynum skoraði 23 stig fyrir Lakers.
Lakers er þó áfram með besta árangurinn í deildinni, 29 sigra og 9 töp, eða 76,3 prósent. Cleveland er næst með 75 prósent.
Úrslitin í nótt:
Charlotte - Houston 102:94
Washington - Detroit 90:99
Memphis - LA Clippers 104:102
San Antonio - LA Lakers 105:85
Sacramento - Orlando 88:109