Þjóðverjinn Dirk Nowitzki varð í nótt fyrsti Evrópubúinn til að skora alls 20 þúsund stig í NBA-deildinni í körfuknattleik. Þessi tröllvaxni leikmaður átti stórleik og skoraði 30 stig gegn meisturum LA Lakers, sem hinsvegar skemmdu stóra daginn fyrir honum og tryggðu sér góðan útisigur í lokin, 100:95.
Það var Kobe Bryant, sem hafði haft hægt um sig vegna meiðsla, sem skoraði körfuna sem réð úrslitum leiksins undir lokin. Rétt á undan hafði Nowitzki sýnt fjölhæfni sína með því að jafna metin í 95:95 með 3ja stiga skoti. Þjóðverjinn tók ennfremur 16 fráköst í leiknum.
Andrew Bynum skoraði 22 stig fyrir Lakers og Lamar Odom tók 14 fráköst. Lakers náði líka stórum áfanga og varð fyrsta liðið í sögu NBA til að vinna 3.000 leiki í deildinni. Kobe Bryant skoraði aðeins 10 stig í leiknum en hvíldi nær allan fyrri hálfleikinn.
Denver Nuggets vann Orlando Magic, 115:97, í öðrum stórleik næturinnar þar sem Carmelo Anthony skoraði 27 stig fyrir Denver og Matt Barnes 28 fyrir Orlando.
Þrjár framlengingar þurfti í Houston þar sem heimamenn í Rockets lögðu að lokum Minnesota Timberwolves, 120:114. Nýliðinn Aaron Brooks skoraði 43 stig fyrir Houston og Al Jefferson tók 26 fráköst fyrir Minnesota. Í venjulegum leiktíma jafnaði Corey Brewer fyrir Houston, 89:89, á lokasekúndunni með ótrúlegu langskoti.
Dwyane Wade skoraði 35 stig fyrir Miami í útisigri á Golden State, 115:102.
Úrslitin í nótt:
Atlanta - Washington 94:82
Indiana - Phoenix 122:114
Philadelphia - New York 92:93
New Jersey - Boston 87:111
New Orleans - LA Clippers 108:94
Oklahoma City - Sacramento 108:109 (framlenging)
Dallas - LA Lakers 95:100
Houston - Minnesota 120:114 (3 framlengingar)
Denver - Orlando 115:97
Portland - Milwaukee 120:108
Golden State - Miami 102:115