Keflavík varð í kvöld fjórða og síðasta liðið til að komast í undanúrslitin í bikarkeppni karla í körfuknattleik, Subwaybikarnum. Keflvíkingar unnu mjög öruggan sigur á Njarðvíkingum, 93:73, í grannaslag í Keflavík.
Áður höfðu ÍR, Snæfell og Grindavík tryggt sér sæti í undanúrslitum keppninnar.
Eftir jafnar upphafsmínútur komst Keflavík í 17:9 og var með forystu, 21:13, eftir fyrsta leikhluta.
Í öðrum leikhluta fóru Keflvíkingar hreinlega hamförum. Þeir náðu mest 25 stiga forystu, 45:20, og þegar flautað var til leikhlés var staðan 51:30, þeim í hag.
Draelon Burns skoraði 17 stig fyrir Keflavík í fyrri hálfleik, Gunnar Einarsson 15 og Hörður Axel Vilhjálmsson 9. Hjá Njarðvík var Guðmundur Jónsson með 7 stig og Nick Bradford 6 en Bradford tók 11 fráköst í fyrri hálfleik.
Keflvíkingar héldu sínum hlut vel í þriðja leikhluta, juku forskotið í 26 stig um tíma, 56:30, en Njarðvík náði að saxa aðeins á það undir lok leikhlutans. Staðan að honum loknum 72:54. Draelon Burns var þá kominn með 21 stig fyrir Keflavík og Nick Bradford 14 stig fyrir Njarðvík.
Sigri Keflvíkinga varð ekki ógnað í fjórða leikhluta. Munurinn hélst svipaður og lokatölur urðu 93:73.
Draelon Burns skoraði 29 stig fyrir Keflavík, Gunnar Einarsson 23 og Hörður Axel Vilhjálmsson 18. Nick Bradford skoraði 16 stig fyrir Njarðvík og tók 14 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson gerði 11 stig og Páll Kristinsson 10.