Dallas Mavericks lagði Milwaukee Bucks að velli í nótt, 108:107, í hörkuspennandi leik í NBA-deildinni í körfuknattleik. Lið Dallas jafnaði með þessu 50 ára gamalt met með því að vinna í tíunda skiptið í röð þegar leikur liðsins endar með eins stigs mun á annan hvorn veginn.
Það var lið St. Louis Hawks sem var jafn öflugt í að knýja fram sigra í jöfnu leikjunum veturinn 1959-1960. Þessi sérstaka sigurganga Dallas hófst árið 2007.
Þjóðverjinn Dirk Nowitzki jafnaði félagsmetið hjá Dallas með því að leika sinn 883. leik fyrir félagið en hann deilir nú metinu með Brad Davis. Nowitzki var stigahæstur hjá Dallas með 28 stig en Andrew Bogut skoraði 32 stig fyrir Milwaukee.
Pau Gasol skoraði 26 stig og tók 10 fráköst fyrir Los Angeles Lakers sem vann Washington Wizards örugglega á útivelli, 115:103.
Úrslitin í nótt:
Washington - LA Lakers 103:115
Dallas - Milwaukee 108:107
New York - Minnesota 132:105
Phoenix - Charlotte 109:114 (framlenging)
Sacramento - Golden State 99:96