Vince Carter skoraði 48 stig fyrir Orlando Magic þegar liðið lagði New Orleans Hornets, 123:117, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt og Pau Gasol var aðalmaður hjá LA Lakers sem sigraði San Antonio Spurs, 101:89.
Þetta er mesta skor Carters í rúm fjögur ár, hann skoraði 51 stig í leik með New Jersey í árslok 2005, og enginn leikmaður Orlando hefur skorað þetta mikið síðan Tracy McGrady gerði 62 stig í leik fyrir tæpum sex árum.
„Þetta verður merkilegra eftir því sem maður eldist og nú get ég sagt: Hei, ég gerði þetta 33 ára gamall. Þetta er þó ekki aðalmálið, við erum með fullan búningsklefa af mönnum sem geta hver um sig skorað 30-40 stig í hverjum leik," sagði Carter sem skoraði aðeins 8,7 stig að meðaltali í leikjum janúarmánaðar. Dwight Howard var líka öflugur fyrir Orlando, skoraði 25 stig og tók 12 fráköst. Orlando tryggði sér sigurinn með frábærum fjórða leikhluta þar sem liðið skoraði 36 stig gegn 23 stigum gestanna frá New Orleans.
LA Lakers lék án tveggja lykilmanna gegn SA Spurs því Kobe Bryant og Andrew Bynum eru báðir meiddir. Pau Gasol tók málin í sínar hendur, skoraði 21 stig, tók 19 fráköst og átti 8 stoðsendingar, ásamt því að verja 5 skot. Manu Ginobili skoraði 21 stig fyrir Spurs.
Dallas Mavericks vann Golden State Warriors á útivelli, 127:117, í þriðja leik næturinnar. Jason Terry skoraði 36 stig fyrir Dallas en Anthony Morrow 33 fyrir Golden State.