Lið KFÍ frá Ísafirði vann í kvöld mikilvægan útisigur, 77:76, gegn Skallagrími í Borgarnesi í 1. deild karla í körfuknattleik. Þar með stigu Ísfirðingar stórt skref í átt að úrvalsdeildinni.
KFÍ er nú komið með 26 stig og á þrjá leiki eftir en Haukar, Valur og Þór úr Þorlákshöfn eru með 20 stig hvert og eiga fjóra leiki eftir. Efsta lið deildarinnar fer beint uppí úrvalsdeildina en fjögur næstu fara í umspil um eitt sæti.
Igor Tratnik skoraði 33 stig fyrir Ísfirðinga og tók 14 fráköst en hann var yfirburðamaður í liði þeirra. Craig Schoen kom næstur í stigaskorun með 9 stig. Konrad Tota skoraði 28 stig fyrir Borgnesinga og Hafþór Ingi Gunnarsson 19. Þeir unnu boltann af Ísfirðingum þremur sekúndum fyrir leikslok en náðu ekki að gera sér mat úr því.
Önnur úrslit í deildinni í kvöld:
Haukar - ÍA 131:79
Hrunamenn - Þór Þ. 84:106
Þór Ak. - Ármann 75:72