Snæfell og Grindavík áttust við í úrslitaleik Subwaybikarkeppni karla í körfuknattleik í Laugardalshöll og hófst leikurinn um klukkan 16:15. Snæfell sigraði 92:81 eftir að hafa verið yfir í leikhléi 44:41. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Atkvæðamestir:
Snæfell: Sean Burton 36 stig, Hlynur Bæringsson 19 fráköst.
Grindavík: Brenton Birmingham 17 stig, Arnar Freyr Jónsson 11 stoðsendingar.
40. mín. LEIK LOKIÐ. Snæfell sigraði 92:81 og leikmenn liðsins fagna ógurlega.
40. mín: Staðan er 92:81 fyrir Snæfell ogrúmar 30 sekúndur eftir. Arnar Freyr gulltryggði eiginlega sigur Snæfells með því að kýla Burton í magann og fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu.
39. mín: Staðan er 87:77 fyrir Snæfell og Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindavíkur tekur leikhlé. Um 1 mínútu langri sókn Snæfells lauk með þriggja stiga körfu frá Emil Þór Jóhannssyni en Hólmarar tóku tvö sóknarfráköst í þessari sókn. Emil hefur líklega veitt Grindvíkingum þarna náðarhöggið.
38. mín: Staðan er 84:77 fyrir Snæfell. Góður kafli hjá Hólmurum og þeir eru nú í lykilstöðu. Emil Þór Jóhannsson setti niður afar mikilvæga þriggja stiga körfu. Hlynur er kominn með 18 fráköst.
35. mín: Staðan er 76:73 fyrir Snæfell. Nú fer lokakaflinn í hönd og spurnign hvort liðið er sterkara á taugum. Eins og staðan er núna er allt opið í þessu.
33. mín: Staðan er 74:69 fyrir Snæfell. Guðlaugur Eyjólfsson skoraði þriggja stiga körfu og minnkaði muninn niður í tvö stig 71:69 en Berkis svaraði um hæl fyrir Hólmara.
30. mín: Staðan er 69:65 fyrir Snæfell fyrir síðasta leikhlutann. Þorleifur Ólafsson Grindavík og Sveinn Davíðsson Snæfelli eru komnir með 4 villur eins og Jón Ólafur Jónsson. Sean Burton lék virkilega til sín taka í þriðja leikhluta og er kominn með 28 stig.
27. mín: Staðan er 56:54 fyrir Snæfell. Guðlaugur Eyjólfsson var að setja niður þriggja stiga skot fyrir Grindavík og það er nokkuð ljóst að boðið verður upp á áframhaldandi spennu í Höllinni í dag. Jón Ólafur Jónsson er kominn með 4 villur í liði Snæfells en aðrir eru með minna.
20. mín: Staðan er 44:41 fyrir Snæfell að loknum fyrri hálfleik. Hörkuleikur og baráttan í fyrirrúmi í fyrri hálfleik. Snæfell er þekkt fyrir að vera sterkt varnarlið og Grindvíkingar hafa verið að kvarta í dómurunum og hafa viljað fá meira fyrir sinn snúð. Hrein unun að fylgjast með baráttu Darrels Flake og Hlyns Bæringssonar undir körfunni. Sean Burton er stigahæstur hjá Snæfelli með 12 stig og Jón Ólafur er með 10 stig. Hlynur hefur tekið 8 fráköst. Þorleifur Ólafsson er stigahæstur Grindvíkinga með 11 stig og Brenton er með 9. Ómar Örn hefur tekið 6 fráköst.
15. mín: Staðan er 32:30 fyrir Snæfell. Skjótt skipast veður í lofti í bikarúrslitum. Pálmi Freyr Sigurgeirsson og Jón Ólafur Jónsson eru báðir komnir í gang og búnir að setja sínar fyrstu þriggja stiga körfur.
13. mín: Staðan er 20:28 fyrir Grindavík sem virðst vera að slíta sig frá Snæfelli. Þorleifur Ólafsson hefur komið sprækur inn af bekknum hjá Grindavík en Martins Berkis kom ískaldur inn hjá Snæfelli og klikkaði á fyrstu þremur skotum sínum.
10. mín: Staðan er 20:18 fyrir Grindavík að loknum fyrsta leikhluta. Leikurinn fer vel af stað og jafnræði er með liðunum. Gamla brýnið Brenton Birmingham hefur byrjað mjög vel og er kominn með 9 stig fyrir Grindavík en hjá Snæfelli er Sean Burton með 8 stig.
5. mín: Staðan er 9:9. Snæfell var fljótt að taka við sér. Fyrstu fimm mínúturnar lofa góðu.
4. mín: Staðan er 6:1 fyrir Grindavík. Suðurnesjamenn byrja mun betur og eru baráttuglaðir. Hólmarar virðast hálf freðnir í sókninni til þess að byrja með.
Byrjunarlið Snæfells: Hlynur Bæringsson, Jón Ólafur Jónsson, Emil Þór Jóhannsson. Sigurður Þorvaldsson, Sean Burton.
Byrjunarlið Grindavíkur: Darell Flake, Ómar Örn Sævarsson, Brenton Birmingham, Páll Axel Vilbergsson, Arnar Freyr Jónsson.
Þjóðsöngurinn hefur verið fluttur og nú ætti leikmönnum ekki að vera neitt að vandbúnaði að hefja leikinn. Heiðursgestir á leiknum eru þeir Stefán Emil Jóhannsson frá Subway á Íslandi ásamt bæjarstjóranum í Grindavík, Ólafi Erni Ólafssyni og Páli Harðarsyni forstjóra Nesbyggðar.