Jarvis tryggði ÍR ævintýralegan sigur

Chris Smith í Fjölni með boltann en Hreggviður Magnússon ÍR-ingur …
Chris Smith í Fjölni með boltann en Hreggviður Magnússon ÍR-ingur er á hælum hans. mbl.is/Ómar

ÍR vann ævintýralegan sigur á Fjölni, 90:89, í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í Grafarvogi í kvöld. Í Stykkishólmi vann Grindavík góðan útisigur á Snæfelli, 98:88.

Grindvíkingar eru þar með nánast búnir að tryggja sér eitt af fjórum efstu sætunum en þeir eru með 30 stig eins og Keflavík í öðru til þriðja sætinu. Snæfell situr eftir með 26 stig og þarf nú að sigra bæði Njarðvík og KR í tveimur síðustu leikjunum til að enda meðal fjögurra efstu.

Staðan eftir leiki kvöldsins þegar öll liðin hafa spilað 20 leiki af 22:
34 KR
30 Keflavík
30 Grindavík
28 Njarðvík
26 Snæfell
26 Stjarnan
14 ÍR
14 Hamar
-----------------
14 Tindastóll
12 Fjölnir
-----------------
10 Breiðablik
  2 FSu

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

20.48 Ótrúlegum lokakafla var að ljúka í Grafarvogi þar sem Robert Jarvis skoraði sigurkörfuna fyrir ÍR-inga með ævintýralegum hætti um leið og leiktíminn rann út, leiknum lauk 89:90.  Þegar 13 sekúndur voru eftir af leiknum og Fjölnismenn höfðu forystu 89:87,  héldu ÍR-ingar í sókn sem virtist vera að renna út í sandinn.  Jarvis rankaði við sér þegar tæplega 3 sekúndur voru eftir og náði skoti langt fyrir utan þriggja stiga línuna í litlu jafnvægi, og skoraði sigurkörfuna.  ÍR-ingar eru því nánast búnir að bjarga sér frá falli og eiga enn von um að ná inn í úrslitakeppnina.  Fjölnismenn sitja því eftir með sárt ennið og ljóst er að þeir verða að vinna síðustu tv leikina til að vera öryggir um að halda sæti sínu í deildinni. 

20.47 Grindvíkingar létu forystuna ekki af hendi á lokamínútunni í Stykkishólmi og unnu Snæfell, 98:88. Páll Axel Vilbergsson skoraði 24 stig fyrir Grindavík og Arnar Freyr Jónsson 20. Sean Burton skoraði 24 stig fyrir Snæfell og Sigurður Þorvaldsson 19.

20.38 Grindvíkingar virðast vera að knýja fram sigur í Hólminum. Þeir eru yfir gegn Snæfelli, 86:79, þegar tæpar tvær mínútur eru eftir. Svipað eftir í Grafarvogi og þar er Fjölnir yfir gegn ÍR, 85:84.

20.30 Það er hörkuspennandi barátta í Stykkishólmi og þegar hálf fimmta mínúta er eftir hafa Grindvíkingar forystu, 77:74. Liðin hafa skipst á um forystuna í fjórða leikhluta. Það er líka allt í járnum í Grafarvogi en staðan hjá Fjölni og ÍR er 78:78.

20.21 Þriðja leikhluta var að ljúka í leik Fjölnis og ÍR, heimamenn hafa forystu 70:67.  Mikill hraði er í leiknum og það stefnir í háspennu fyrir lokafjórðunginn í Grafarvogi.  Christopher Smith er með 20 stig fyrir Fjölni og Steinar Arason er með 20 stig fyrir ÍR.


20.16 Grindvíkingar jöfnuðu metin gegn Snæfelli fyrst í 56:56 og skoruðu síðan sex síðustu stigin í þriðja leikhluta. Að honum loknum er staðan 60:64, gestunum úr Grindavík í hag. Arnar Freyr Jónsson og Páll Axel Vilbergsson eru með 17 stig hvor fyrir Gríndavík en Hlynur Bæringsson hefur skorað 14 stig fyrir Snæfell.


19.59 Eftir að hafa skorað fyrstu 7 stigin í 2. leikhluta eru Fjölnismenn yfir í hálfleik gegn ÍR, 42:40, þar sem að Níels Dungal skoraði þriggja stiga körfu rétt áður en flautan gall.  Christopher Smith er stigahæstur hjá Fjölni með 14 stig og Tómas Tómasson með 9 stig.  Hjá ÍR er Robert Jarvis nokkuð heitur fyrir utan þriggja stiga línuna og er stigahæstur ÍR-inga með 11 stig og Kristinn Jónasson er með 10 stig.  Hörkuleikur í Grafarvoginum þar sem ómögulegt er að segja til um framvindu mála.

19.50 Snæfell er yfir í hálfleik gegn Grindavík, 41:32, í Stykkishólmi.  Sigurður Þorvaldsson hefur skorað 10 stig fyrir Snæfell og Hlynur Bæringsson er með 8 stig og 7 fráköst. Páll Axel Vilbergsson hefur skorað 9 stig fyrir Grindvíkinga. Fyrri leikur liðanna endaði 95:94 fyrir Grindavík þannig að með tveggja stiga sigri í kvöld yrðu Snæfellingar ofar ef liðin yrðu jöfn í lok deildakeppninnar.

19.43 Snæfell hefur gefið í gegn Grindvíkingum og staðan þegar 3 mínútur eru til hálfleiks er 37:25. Í Grafarvogi er staðan 30:33 hjá Fjölni og ÍR.

19.37 Fyrsta leikhluta er lokið í leik Fjölnis og ÍR þar sem gestirnir úr Breiðholtinu eru með forystu, 18:27.  Nemanja Sovic er stigahæstur ÍR-inga með 7 stig og fyrir Fjölni er Christopher Smith stigahæstur með 10 stig.

19.35 Stjarnan er yfir gegn KR, 20:12, í Garðabæ.

19.33 Snæfell er með forystu gegn Grindavík, 23:18, eftir fyrsta leikhluta. Hlynur Bæringsson og Sigurður Þorvaldsson eru með 8 stig hvor fyrir Snæfell en Páll Axel Vilbergsson 7 stig fyrir Grindavík.

19.29 Snæfell er yfir gegn Grindavík, 19:9, eftir 7 mínútna leik. Hlynur Bæringsson er kominn með 8 stig og 4 fráköst fyrir heimamenn í Hólminum.

19.23 Í Grafarvogi er allt í járnum og ÍR með forystu, 11:9, þegar fyrsti leikhluti er hálfnaður.

19.21 Snæfell hefur byrjað betur gegn Grindavík og staðan eftir 4 mínútur er 11:7.

19.15 Flautað til leikjanna.

Tómas Tómasson í Fjölni sækir en Elvar Guðmundsson í ÍR …
Tómas Tómasson í Fjölni sækir en Elvar Guðmundsson í ÍR er til varnar í leiknum í kvöld. mbl.is/Ómar
Hlynur Bæringsson og félagar hans í Snæfelli taka á móti …
Hlynur Bæringsson og félagar hans í Snæfelli taka á móti Grindavík. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka