Sævaldur Bjarnason þjálfari Breiðabliks var niðurlútur eftir tapleikinn gegn Fjölni enda er Breiðablik fallið í 1. deild.
„Við töpuðum leiknum á fráköstum og varnaleik fyrst og fremst. Við áttum í erfiðleikum með varnarleikinn þeirraog um leið eru þeir að skora allt of mörg stig á okkur. Við héldum Hamri í 73 stigum í síðasta leik sem ég var sáttur með. Við náðum bara ekki upp sömu stemmingu í varnarleiknum hjá okkur í kvöld og því fór sem fór“. Spurður um framhaldið og hvort hann komi til með að halda áfram með liðið hafði Sævaldur þetta að segja: „Ég var ráðinn í 7 vikur og það er einn leikur eftir, við byrjum á að klára hann Það höfðu ekki margir trú á Breiðabliki þegar ég tók við, við unnum nú samt 3 leiki og náðum að halda í vonina með að bjarga okkur frá falli alveg þar til í kvöld. Ég veit svo ekki með framhaldið, við verðum bara að sjá hvernig þau mál þróast”, sagði Sævaldur í samtali við mbl.is í kvöld.