Cleveland Cavaliers sigraði Boston Celtics á sannfærandi hátt, 104:93, í stórleik NBA-deildarinnar í körfuknattleik í nótt.
LeBron James var að vanda í stóru hlutverki hjá Cleveland, skoraði 30 stig og átti 7 stoðsendingar. Doc Rivers, þjálfari Boston, sagði hinsvegar að það hefði verið Anderson Varejao, sem hefði verið sínum mönnum erfiðastur í leiknum, enda þótt hann hefði ekki skotið á körfu Boston í síðari hálfleiknum.
„Ef einn maður stjórnaði leiknum, þá var það Varejao. Hann berst um alla bolta, er á fullri ferð og pirrar mótherjana. Hann vinnur svo sannarlega sína vinnu," sagði Rivers. Ray Allen var stigahæstur í hans liði með 20 stig.
Dwyane Wade skoraði 38 stig fyrir Miami Heat sem vann Philadelphia 76ers, 104:91.
Kevin Durant skoraði 35 stig fyrir Oklahoma City Thunder sem vann Utah Jazz, 119:111.
Amare Stoudamire skoraði 36 stig og tók 12 fráköst fyrir Phoenix Suns sem vann New Orleans Hornets, 120:106.
Úrslitin í nótt:
Milwaukee - Indiana 98:94
Cleveland - Boston 104:93
Miami - Philadelphia 104:91
Orlando - Charlotte 89:96
Oklahoma City - Utah 119:111
Phoenix - New Orleans 120:106
Portland - Toronto 109:98
Sacramento - Minnesota 114:100