Öruggur sigur KR í fyrsta leik

Brynjar Þór Björnsson hefur verið frábær fyrir KR í vetur.
Brynjar Þór Björnsson hefur verið frábær fyrir KR í vetur. mbl.is

KR vann í kvöld góðan sigur á ÍR, 98:81, þegar liðin áttust við í fyrsta leik sínum í 8-liða úrslitum Iceland Express-deildarinnar í körfuknattleik karla. KR-ingar náðu mest 21 stigs forskoti í byrjun 4. leikhluta og var sigurinn aldrei í hættu. Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Næst eigast liðin við í Seljaskóla á sunnudag kl. 19:15.

Stigahæstur hjá KR var Morgan Lewis með 30 stig, þar af 10 stig eftir litríkar troðslur, en Pavel Ermolinskij var einnig afar drjúgur með 10 stig, 15 fráköst og 16 stoðsendingar. Hjá ÍR-ingum var Robert Jarvis stigahæstur með 29 stig en hann fór á kostum í síðasta leikhlutanum. Nemanja Sovic gerði 20 stig fyrir ÍR.

40. Öruggur sigur KR-inga í höfn og af leiknum í kvöld að dæma eiga þeir greiða leið í undanúrslitin.

35. Gestirnir úr Breiðholtinu eru ekki búnir að gefast upp og hafa gert 8 stig í röð svo staðan er nú 81:69. Þar af setti Robert Jarvis niður tvo þrista í röð. Kannski við fáum smá spennu í lokin eftir allt saman.

30. KR-ingar juku forskot sitt í 3. leikhlutanum og eru að sigla öruggum sigri í höfn. Þeir eru nú nítján stigum yfir, 77:58.

25. KR er með fjórtán stiga forskot nú þegar 3. leikhluti er hálfnaður, 62:48, og virðist síður en svo líklegt til að láta sigurinn renna sér úr greipum. Miklu munar um yfirburði liðsins þegar kemur að fráköstum en KR-ingar hafa tekið 33 fráköst gegn 14 fráköstum gestanna. Þar af hefur Pavel Ermolinskij tekið 10 fráköst.

20. ÍR-ingar náðu aðeins að rétta sinn hlut eftir að hafa verið lentir 14 stigum og er staðan 52:42 þegar leikmenn ganga til búningsklefa í hálfleik. Pavel Ermolinskij hefur að vanda verið ansi drjúgur fyrir KR og átt níu stoðsendingar auk þess að taka 8 fráköst en Morgan Lewis er stigahæstur heimamanna með 19 stig, þar af sex eftir þrjár flottar troðslur. Nemanja Sovic hefur gert 14 stig fyrir ÍR og Robert Jarvis 7 auk þess að eiga fjórar stoðsendingar, þar af eina á Kristinn Jónasson sem tróð með tilþrifum undir lok fyrri hálfleiksins.

18. KR-ingar hafa gert 11 síðustu stig og eru komnir með tólf stiga forskot, 48:36, en þetta er mesti munur sem verið hefur á liðunum í leiknum. Morgan Lewis átti rétt í þessu sína þriðju troðslu þegar hann greip boltann á lofti eftir magnaða stoðsendingu frá Pavel Ermolinskij.

15. Heimamenn hafa verið að keyra upp hraðann og nýtt sér það hve seinir ÍR-ingar eru að skila sér tilbaka í vörn. Morgan Lewis hefur þannig átt tvær frábærar troðslur sem glatt hafa augað. Staðan er engu að síður 37:36 þegar 2. leikhluti er hálfnaður.

10. KR-ingar eru tveimur stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, þökk sé góðri körfu Morgan Lewis á lokasekúndunni. Gestirnir hafa haft í fullu tré við Íslandsmeistarana enn sem komið er en spurningin er hvernig þeir endast.

5. Gestirnir úr ÍR byrjuðu leikinn ögn betur með Eirík Önundarson fremstan í flokki en KR-ingar komust yfir í fyrsta sinn eftir tæplega fimm mínútna leik í stöðunni 11:10 við mikinn fögnuð fjölmargra áhorfenda sem mættir eru.

KR varð sem kunnugt er deildarmeistari á dögunum en ÍR-ingar náðu 8. sætinu með naumindum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert