Cleveland Cavaliers vann í nótt sinn 60. leik í NBA-deildinni í körfubolta í vetur og tryggði sér jafnframt efsta sætið í Austurdeildinni með því að sigra Atlanta Hawks, 93:88.
Þetta er annað árið í röð sem Cleveland nær 60 sigrum í deildakeppninni og þar á liðið enn eftir sex leiki. Næsta lið, Orlando Magic, hefur unnið 53 leiki.
LeBron James var stigahæstur eins og oftast og gerði 27 stig en J.J. Hickson félagi hans tók 16 fráköst. Josh Smith skoraði 20 stig fyrir Atlanta.
Eftir tvo tapleiki í röð náði LA Lakers að sigra Utah Jazz, 106:92. Kobe Bryant framlengdi samning sinn við félagið fyrr um daginn en náði sér ekki á strik að þessu sinni. Lamar Odom, sem skoraði 26 stig, og Pau Gasol, sem tók 16 fráköst og átti 9 stoðsendingar, tóku að sér aðalhlutverkin í staðinn. Carlos Boozer skoraði 20 stig fyrir Utah.
Houston Rockets lagði Boston Celtics á útivelli í framlengdum leik, 119:114, og Boston tapaði þar með þriðja heimaleiknum í röð. Aaron Brooks skoraði 30 stig fyrir Houston sem lék án tveggja lykilmanna, Kevin Martin og Trevor Ariza. Paul Pierce skoraði 27 stig fyrir Boston.
Manu Ginobili skoraði 43 stig fyrir San Antonio Spurs sem lagði Orlando Magic, 112:100.
Úrslitin í nótt:
Charlotte - Milwaukee 87:86 (framlenging)
Indiana - Miami 96:105 (framlenging)
Washington - Chicago 87:95
Boston - Houston 114:119 (framlenging)
Cleveland - Atlanta 93:88
Detroit - Phoenix 94:109
Memphis - New Orleans 107:96
San Antonio - Orlando 112:100
Golden State - New York 128:117
LA Lakers - Utah 106:92