Kobe með nýjan samning við Lakers

Kobe Bryant er í hópi bestu körfuboltamanna sögunnar.
Kobe Bryant er í hópi bestu körfuboltamanna sögunnar. Reuters

Körfuboltastórstirnið Kobe Bryant hefur skrifað undir nýjan samning við Los Angeles Lakers til þriggja ára, eða til vorsins 2013.

Kobe, sem er 31 árs, er stigahæsti leikmaðurinn í sögu Lakers og er talinn einn sá besti í sögu NBA-deildarinnar.

„Við erum sérstaklega ánægðir með að hafa komist að samkomulagi um nýjan samning. Kobe hefur verið lykilmaður hjá okkur í rúman áratug og unnið með okkur fjóra NBA-titla. Á þessum tíma hefur hann fest sig í sessi sem einn besti körfuboltamaður sögunnar," sagði Mitch Kupchak, stjórnarmaður Lakers, við fjölmiðla vestanhafs.

„Þetta er mikill heiður. Þegar ég skrifaði undir sá ég mynd sem var tekin þegar ég skrifaði undir fyrsta samninginn, 17 ára gamall. Ég man það eins og það hafi gerst í gær og ef ég spóla hratt yfir ferilinn þá hefur það verið mín gæfa að leika hér," sagði Kobe Bryant.

Þegar hann var spurður hvort þetta þýddi að hann myndi ljúka ferlinum sem leikmaður Lakers svaraði hann: „Mjög líklega."

Kobe  gekk hinsvegar ekki sem best í fyrsta leiknum eftir undirskriftina. Þegar Lakers vann Utah  Jazz í nótt, 106:92, hitti hann aðeins úr einu af fyrstu 13 skotum sínum og aðeins úr 5 skotum af 23 utan af velli. Þó endaði hann á því að gera 25 stig í leiknum.

Kobe Bryant fæddist 23. ágúst 1978 í Philadelphia. Hann er skotbakvörður, 1,97 m á hæð og 93 kíló. Hann kom til Lakers beint úr menntaskóla, aðeins 17 ára gamall, og hefur verið með liðinu allar götur síðan og unnið alla þá félags- og einstaklingstitla sem mögulegt er í NBA-deildinni. Þá varð hann Ólympíumeistari með Bandaríkjamönnum í Peking 2008.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert