Finnur Atli Magnússon var stigahæstur KR-inga í kvöld þegar liðið tapaði fyrir Snæfelli 102:84 í DHL-höllinni. Snæfell er 1:0 yfir í rimmu liðanna en vinna þarf þrjá leiki til þess að komast í úrslit Íslandsmótsins gegn Keflavík eða Njarðvík.
„Í fyrri hálfleik náðu þeir allt of mörgum sóknarfráköstum en í seinni hálfleik þá duttu þeir einfaldlega í gírinn. Við spiluðum ekki nægilega góða vörn og þeir fengu að fara hvert sem þeir vildu á vellinum. Við ætluðum að reyna að halda þeim á hinum vallarhelmingnum en þeir fengu að gera það sem þeir vildu. Það var kannski táknrænt í síðari hálfleiknum þegar við klikkuðum á tveimur troðslum og fengum þrist í andlitið í staðinn. Við skutum einnig illa í leiknum. Þegar annað spilar illa þá lítur hitt liðið vel út. Þeir eru vissulega með mjög gott lið og voru að hitta úr skotunum sínum,“ sagði Finnur í samtali við mbl.is að leiknum loknum. Þrátt fyrir að Finnur hefði skorað 20 stig þá þurfti hann samt að verma bekkinn mest alllan síðasta leikhlutann. „Þá ætluðum við að reyna að pressa og hleypa leiknum upp. Ég viðurkenni að ég er ekki með mestu snerpuna í liðinu og þess vegna er kannski betra að vera með Darra eða Tommy í framherjastöðunni þegar við pressum. Það gekk hins vegar ekki upp hjá okkur og þeir náðu að brjótast út úr pressunni og fá auðveldar körfur,“ bætti Finnur við.
Páll Kolbeinsson varð fyrir vonbrigðum með frammistöðu sinna manna. „Við tókum mörg léleg skot í síðari hálfleik og þeir fengu hraðaupphlaup og opin skot í kjölfarið. Vörnin var heldur ekki í lagi hjá okkur en þetta var einn af þessum leikjum þar sem sóknarleikurinn gengur einfaldlega ekki upp. Menn voru heldur ekki að hitta úr opnu færunum. Menn eins og Brynjar sem eru með um 40% hittni í þriggja stiga skotum voru ekki að setja neitt niður að þessu sinni. Við sáum ekki lykilmenn okkar ná sér á strik,“ sagði Páll í samtali við mbl.is og bætti því við að KR komst aldrei inn í leikinn aftur eftir að Snæfell náði 15 stiga forskoti í þriðja leikhluta.