Finnur: Skotin okkar hrikaleg

Úr leik KR og Snæfells.
Úr leik KR og Snæfells. mbl.is/Kristinn

„Ég veit ekki hvað er hægt að segja um svona leik, mér fannst við tilbúnir í þennan leik en of æstir í öðrum leikhluta. Þá náðum við ekki að stjórna leiknum en þriggja stiga skotin voru hrikaleg, við hittum ekki neitt en æfum samt hérna í KR-húsinu fimm sinnum í viku og nokkrir fara sérstaklega til æfa skotin,“ sagði Finnur Atli Magnússon sem átti góðan leik fyrir KR gegn Snæfell í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik, sem fram fór í Vesturbænum í dag.

Finnur tók 6 fráköst, varði þrjú skot og gerði 13 stig en varð að fylgjast með af bekknum eftir að hafa fengið sína fimmtu villu í byrjun fjórða leikhluta.

„Við höfum tvisvar farið í Stykkishólm og ekki tapað leik þar svo við förum fullir sjálfstrausts en það var sárt að tapa þessu, sérstaklega þegar það var að vísu eitthvað ójafnvægi í dómum leiksins og mér fannst allir vafadómar falla þeirra megin. Í næsta leik þurfum við að bara að hitta í körfuna og halda líka áfram að spila á fullu en í dag gerðum við nokkur heimskulega mistök og Morgan var óheppinn í lokin þegar hann hitti ekki en slíkt gerist. Við þurfum bara að hífa upp um okkur buxurnar og láta dómarana ekki fara í taugarnar á okkur, eins og gerðist í leiknum því við gerðumst þá of æstir,“ bætti Finnur við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert