Snæfell fagnaði fjögur stiga sigri, 81:77, á KR í KR-höllinni í dag þegar þriðji leikur liðanna í undanúrslitum Iceland Express-deildarinnar í körfuknattleik fór fram í dag. Hlynur Bæringsson veitti náðarhöggið þegar hann skoraði úr báðum vítaskotum sínum er tæpar tvær sekúndur voru eftir.
Leikurinn var æsispennandi allann leikinn og ekki hefði þurft nema smá lukku, væntanlega byggða á dugnaði, til að ná mikilvægu forskoti en það varð ekki svo úrslit voru ekki ráðin fyrr en eftir darraðadans í lokin.
Næsti leikur er í Stykkishólmi á mánudag og með sigri geta Hólmarar tryggt sér sæti í úrslitaleiknum en þar sem allir þrír leikir KR og Snæfell hafa unnist á útivelli er ekki á vísan að róa.
KR: Morgan Lewis 29/10 fráköst, Finnur Atli Magnússon 13/6 fráköst/3
varin skot, Brynjar Þór Björnsson 10/4 fráköst, Fannar Ólafsson 9/5
fráköst, Tommy Johnson 7, Pavel Ermolinskij 7/11 fráköst/9
stoðsendingar, Jón Orri Kristjánsson 2, Steinar Kaldal 0, Skarphéðinn
Freyr Ingason 0, Darri Hilmarsson 0, Ólafur Már Ægisson 0, Egill
Vignisson 0.
Snæfell: Hlynur Bæringsson 19/15 fráköst/3 varin skot, Martins Berkis
15/4 fráköst, Jón Ólafur Jónsson 14/5 fráköst, Emil Þór Jóhannsson 10,
Sean Burton 10/5 fráköst, Páll Fannar Helgason 5, Pálmi Freyr
Sigurgeirsson 5, Sigurður Á. Þorvaldsson 3/6 fráköst, Kristján Andrésson
0, Egill Egilsson 0, Gunnlaugur Smárason 0, Sveinn Arnar Davíðsson 0.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Jón Guðmundsson
Leiknum er lokið með sigri Snæfells.
Ein mínútu og þrjár sekúndur eftir þegar KR fær tvö vítaskot og Snæfell tók leikhlé.
Sléttar þrjár mínútur eftir að leiknum og tvær þriggja stiga körfur Hólmarans Martins Berkis kom Snæfell í nauma forystu.
Um fjórar mínútur liðnar af fjórða leikhluta og staðan "bara" 67:65, sem þýðir að hvort lið hefur bara hitt körfuna einu sinni í þessar fjórar mínútur.
Þriðja leikhluta lokið. Eftir varfærnislega byrjun komst meira fjör í leikinn og þegar Pavel hrökk í gang dugði það til að KR náði sér á strik. Þó munar ekki nema nokkrum stigum. Villur fara fljótlega að setja mark sitt á leikinn því KR-ingarnir Finnur og Skarphéðinn eru komnir með fjórar en hjá Snæfell Pálmar og Emil. Ekki er laust við að leikmenn færu aðeins varlegar í byrjun en hreinlega mega ekki slaka of mikið á.
Seinni hálfleikur hafinn. Finnur Magnússon hjá KR og Sean Burton hjá Snæfell byrja báðir en þeir eru báðir með þrjár villur á bakinu. Fyrstu tölur um fjölda eru klárar, milli 1.300 og 14.00 manns.
20:00. Öðrum leikhluta lokið. Mikil spenna hingað til með mörgum mistökum, svakalegum troðslum, vörðum skotum - og það er bara hálfleikur. Með vel lukkuðum endasprett náði Snæfell 7 stigum í röð og hefur 5 stiga forskot, 35:40.
Greinilega má sjá spennu í leikmönnum sem er skiljanlegt því spennan er mjög mikil í húsinu. Athygli vekur að Morgan Lewis og Finnur Magnússon hafa skorað 27 af 35 stigum og samtals níu fráköst en Pavel Ermolinski hefur tekið 8 fráköst. Hjá Snæfell hafa Hlynur Bæringsson og Jón Ólafur Jónsson gert 21 af stigum liðsins auk þess að Hlynur er með níu fráköst. Vesturbæingurinn Morgan hefur glatt geð heimamanna með tveimur troðslum, sú síðari var mjög kraftmikil og allir höfðu gaman af.
12:15: Snæfell tók leikhlé enda ekki skorað stig í öðrum leikhluta gegn sex stigum KR svo að nú munar tveimur stigum, 25:23.
10:00. Fyrsta leikhluta lokið. Snæfell byrjaði betur en missti boltann of mikið svo að KR náði yfirhöndinni en missti hana síðan. Morgan Lewis dregur vagninn fyrir KR með 12 stig.
8:0. Tvær og hálf mínúta eftir að fyrsta leikhluta og Snæfell komið yfir á ný, 15:17.
5:0. Fyrsti leikhluti hálfnaður, Snæfell byrjaði á að ná 4:0 en KR komst inní leikinn og hefur 13:10 forystu.
1:0. Leikur hafinn, Snæfell nær uppkastinu.
Klukkan 16:20. Byrjunarliðin stíga inná völlinn og dómarar búa sig undir að kasta upp boltanum.
Klukkan 16.17. Dómarar gefa merki um að þrjár mínútur séu þar til leikur hefst.
Klukkan 16.13. Eitthvað að gerast, dómarar benda leikmönnum á að fara útaf vellinum og þulurinn byrjar að kynna liðin.
Klukkan 16.10. Enn er beðið. Starfsmenn segja að þegar fólk fór að safnast í salinn og þekja hvert svæði hafi einhver rekið sig í rafmagnssnúruna í stigaklukkuna og rofið sambandið. Rafvirkinn var sendur á harðahlaupum heim að ná í lóðboltann. Sá ætli verði með harðsperrur í kvöld en gæti líka verið með sælubros á vör - eða ekki - allt eftir því hvernig leikurinn fer.
Klukkan 15:58. Tilkynnt um tíu mínútna seinkun vegna vandamála. Gæti tengst því að þulur vallarins auglýsir óskar eftir að ef það sé rafvirki í húsinu sé hann beðinn um að gefa sig fram.
Klukkan 15:50. Höllinn í Vesturbænum óðum að fyllast, öll sæti upptekin og aukapallar að fyllast. Íslandsmeistarar KR frá 1990 boðnir fram á völlinn þar sem áhorfendur hylla þá. Stoltir strákar og ekki laust við tár á hvarmi.