Keflavík er komin í úrslit

Uruele Igbavboa, Keflvíkingur, brunar að körfu Njarðvíkur.
Uruele Igbavboa, Keflvíkingur, brunar að körfu Njarðvíkur. mbl.is/Skúli Sigurðsson

Keflavík er komið í úrslit á Íslandsmóti karla í körfuknattleik, Iceland Express deildinni, eftir sigur á Njarðvík, 89:83, í fjórðu viðureign liðanna í Njarðvík í kvöld. Keflavíkurliðið var yfir allan leikinn en undir lokin náðu Njarðvíkingar að minnka muninn í tvö stig, 82:80. Draelon Burn innsiglaði sigur Keflvíkinga með þriggja stiga körfu 20 sekúndum fyrir leikslok.

Keflavík mætir annað hvort Íslandsmeisturum KR eða Snæfelli í úrslitum sem hefjast á mánudag. Það ræðst annað kvöld hvort það verða KR-ingar eða Snæfellingar sem leika til úrslit en liðin mætast í oddaleik á heimavelli KR annað kvöld.

Njarðvík
Keflavík
Dómarar

38,30 Njarðvíkingum tókst loks að minnka muninn í fjögur stig, 80:76, þegar ein og hálf mínúta er eftir. Þeir fengu sex sóknir til að minnka munn í stöðunni 80:74.

35. Keflvíkingar hafa náð níu stiga forskoti á nýjan leik eftir að Njarðvík hafði minnkað muninn í fjögur stig, 73:69. Tvenn mistök Njarðvíkinga í í jafnmörgum sóknum voru dýr. Spennan mikil eigi að síður í „Ljónagryfjunni“ þegar fimm mínútur eru til leiksloka.

30. Útlit fyrir spennandi lokaleikhluta í Njarðvík. Heimamenn hafa aðeins saxað á forskot Keflvíkinga. Aðeins munar sex stigum á liðunum, 69:63, þegar síðasti leikhlutinn hefst.

25. Njarðvíkingum gengur lítt að vinna upp forskot Keflavíkur. Nú munar tólf stigum gestunum í hag, 60:48.

20. Flautað hefur verið til loka annars leikhluta. Keflavíkurliðið hefur sem fyrr forystu enda hefur það verið mun sterkara til þessa. Sérstaklega hefur varnarleikur Keflvíkinga reynst Njarðvíkingum erfiður.
Jóhann Árni Ólafsson og Páll Kristinsson hafa skorað sjö stig hvor fyrir Njarðvík og Nick Bradfor hefur gert sex stig. Draelon Burns er stigahæstur hjá Keflavík með 13 stig. Urele Igbavboa er með 12 stig og Hörður Axel Vilhjálmsson með 9 stig.
Egill Jónasson og Guðmundur Jónsson hafa fengið þrjár villur hvor í liði Njarðvíkur. Burns er eini leikmaður Keflavíkur sem fengið hefur þrjár villur enn sem komið er.

15. Leikmenn Keflavíkur hefja annan leikhluta af miklum krafti og hafa nú tíu stiga forskot, 39:29, en þeir náðu mest 12 stiga forystu.

10. Fyrsta leikhluta er lokið. Keflavík er tveimur stigum yfir, 26:24, eftir að hafa verið yfir allt frá byrjun. Mest náði Keflavíkurliðið sex stiga forskoti, 20:13.

5. Mikil barátta á upphafsmínútum leiksins og hnifjafnt, staðan er 10:9, Keflavík í troðfullri „Ljónagryfjunni" í Njarðvík.

Keflvíkingar geta tryggt sér sigur í einvíginu í kvöld. Vinni Njarðvíkingar leikinn verður oddaleikur í Keflavík á fimmtudagskvöldið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert