Bandaríski körfuknattleiksmaðurinn Jeb Ivey, sem lék með Njarðvík, Fjölni og KFÍ á árum áður, er á leið til landsins til að spila með Snæfelli gegn Keflavík í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik annað kvöld.
Hann á að leysa af hólmi Sean Burton, sem er meiddur og ekki leikfær. Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells staðfesti þetta við mbl.is rétt í þessu.
Jeb Ivey lauk tímabilinu með Joensuun Kapaja í Finnlandi í síðustu viku og er laus allra mála þar. Snæfell hefur gengið frá félagaskiptum en nú snýst allt um hvort hann nái til landsins í tæka tíð.
Flugvellir í Finnlandi eru enn lokaðir vegna ösku frá Eyjafjallajökli og Ivey er því þessa stundina um borð í ferju á leið frá Helsinki til Stokkhólms. Þaðan flýgur hann síðan til Keflavíkur og á að vera mættur í Stykkishólm í tæka tíð fyrir leikinn annað kvöld ef allt gengur að óskum.
Ivey er vel kunnur hér á landi því hann lék í fjögur ár með íslenskum liðum. Fyrst með KFÍ 2003-04, þá Fjölni 2004-05, og síðan í tvö ár með Njarðvík frá 2005 til 2007. Ivey er mjög góð 3ja stiga skytta og gæti því komið Snæfelli að góðum notum í fjarveru Burtons, sem hefur verið í stóru hlutverki hjá liðinu í vetur.