Allt í sóma í Oklahóma

Kevin Durant hjá Oklahoma brunar í átt að Kobe Bryant …
Kevin Durant hjá Oklahoma brunar í átt að Kobe Bryant og körfu Lakers í leiknum í nótt. Reuters

Topplið NBA-deildarinnar í körfubolta, LA Lakers og Cleveland, töpuðu bæði í úrslitakeppninni í nótt, Lakers í Oklahoma, 101:96, og Cleveland í Chicago, 108:106. Phoenix burstaði Portland á útivelli, 108:89.

Lakers og Cleveland eru þó bæði yfir í sínum einvígjum, 2:1, og Phoenix tók forystuna gegn Portland, 2:1. Fjóra sigra þarf til að komast áfram.

Chicago náði góðri forystu í fyrsta leikhluta, 32:21, og hélt þeim mun lengst af en Cleveland saxaði mjög á forskotið í lokin. Fékk meira að segja tækifæri á lokasekúndunni en langskot frá Anthony Parker geigaði.

Bakverðirnir Dennis Rose og Kirk Hinrich voru mennirnir á bakvið sigur Chicago og gerðu ríflega helming stiga liðsins. Rose skoraði 31 stig og Hinrich 27. LeBron James skoraði 39 stig fyrir Cleveland, tók 10 fráköst og átti 8 stoðsendingar.

Kevin Durant átti stórleik með Oklahoma City gegn Lakers en hann skoraði 29 stig og tók 19 fráköst, og var öðrum fremur á bakvið fyrsta sigur liðsins í sögunni í úrslitakeppni NBA. Kobe Bryant skoraði 24 stig fyrir Lakers og átti 8 stoðsendingar en hann gerði aðeins 4 stig í fjórða leikhluta þar sem átta skot hans af tíu geiguðu. Þar átti Durant stóran hlut að máli en hann lék mjög sterka vörn gegn Kobe á lokasprettinum, eftir að hafa komið lítið að því að gæta hans í leikjum liðanna framað því. Það þótti líka sérstakt að Kobe fékk ekki eitt einasta vítaskot í leiknum.

„Þetta er sjaldgæft. Þeir fengu 34 vítaskot en við bara 12. Það er ekki vegna dómgæslunnar, heldur voru þeir mikið grimmari en við," sagði Phll Jackson, hinn reyndi þjálfari Lakers.

Jason Richardson lék frábærlega með Phoenix í stórsigrinum í Portland, 108:89, og skoraði 42 stig. „Þetta var ótrúlegt, ég var alltaf frír, og ég var steinhissa á því hve oft þeir leyfðu mér að skjóta óáreittum," sagði Richardson sem setti persónulegt met í úrslitakepni. Phoenix var með yfirburðastöðu í hálfleik, 66:37, og náði mest 31 stigs forskoti áður en heimamenn fóru að minnka muninn sem varð minnstur 11 stig þegar 5 mínútur voru eftir.

Steve Nash átti 10 stoðsendingar fyrir Phoenix. LaMarcus Aldridge var atkvæðamestur hjá Portland með 17 stig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert