„Munurinn liggur í fráköstunum“

Nick Bradford lék á ný með Keflavík í dag. Hér …
Nick Bradford lék á ný með Keflavík í dag. Hér er hann í baráttu við Hlyn Bæringsson og Pálma Frey Sigurgeirsson. mbl.is/hag

Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur, var sérstaklega vonsvikinn með varnarleikinn gegn Snæfelli í dag þegar mbl.is ræddi við hann. Keflavík tapaði fyrir Snæfelli á heimavelli 85:100 og er nú 1:2 undir í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik karla.

„Annan leikinn í röð vantaði grimmd í varnarleikinn hjá okkur. Þeir tóku allt of mörg sóknarfráköst og við héldum þeim ekki nægilega vel frá körfunni. Þeir tóku alltof mörg fráköst á heildina litið og fengu því of mörg tækifæri. Í því liggur munurinn á liðunum,“ sagði Guðjón við mbl.is. 

Framan af leik fengu Hólmarar frið til þess að keyra í gegnum miðja vörn Keflvíkinga og leggja boltann ofan í körfuna. Óvenjulegt að sjá lið Keflavíkur bjóða upp á það í úrslitakeppni og það hlýtur að hafa verið óþolandi fyrir þjálfarann að horfa upp á slíkt. 

„Algerlega. Þetta er atriði sem við höfum gert mjög vel í vetur, þ.e. að halda mönnum frá körfunni. Við höfum stýrt varnarleiknum mun betur og þvingað andstæðingana í erfið skot. Nú koma hins vegar tveir leikir í röð þar sem við erum ekki að finna þetta. Ég efast hins vegar ekkert um að við förum í Hólminn og nælum okkur í oddaleik. Það er engin spurning að við eigum eftir að koma hingað aftur. Við förum yfir þetta og lögum það sem við þurfum að laga,“ sagði Guðjón Skúlason. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert