Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur, var sérstaklega vonsvikinn með varnarleikinn gegn Snæfelli í dag þegar mbl.is ræddi við hann. Keflavík tapaði fyrir Snæfelli á heimavelli 85:100 og er nú 1:2 undir í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik karla.
„Annan leikinn í röð vantaði grimmd í varnarleikinn hjá okkur. Þeir tóku allt of mörg sóknarfráköst og við héldum þeim ekki nægilega vel frá körfunni. Þeir tóku alltof mörg fráköst á heildina litið og fengu því of mörg tækifæri. Í því liggur munurinn á liðunum,“ sagði Guðjón við mbl.is.
Framan af leik fengu Hólmarar frið til þess að keyra í gegnum miðja vörn Keflvíkinga og leggja boltann ofan í körfuna. Óvenjulegt að sjá lið Keflavíkur bjóða upp á það í úrslitakeppni og það hlýtur að hafa verið óþolandi fyrir þjálfarann að horfa upp á slíkt.
„Algerlega. Þetta er atriði sem við höfum gert mjög vel í vetur, þ.e. að halda mönnum frá körfunni. Við höfum stýrt varnarleiknum mun betur og þvingað andstæðingana í erfið skot. Nú koma hins vegar tveir leikir í röð þar sem við erum ekki að finna þetta. Ég efast hins vegar ekkert um að við förum í Hólminn og nælum okkur í oddaleik. Það er engin spurning að við eigum eftir að koma hingað aftur. Við förum yfir þetta og lögum það sem við þurfum að laga,“ sagði Guðjón Skúlason.