Keflavík knúði fram oddaleik gegn Snæfelli

Hlynur Bæringsson í baráttunni í leiknum í kvöld.
Hlynur Bæringsson í baráttunni í leiknum í kvöld. mbl.is/hag

Fjórði úrslitaleikur Snæfells og Keflavíkur um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik karla, hefst í íþróttahúsinu í Stykkishólmi klukkan 19:15. Keflavík sigraði 82:73 eftir að hafa verið með forskot nánast allan leikinn. Liðin þurfa því að mætast á fimmtudaginn í hreinum úrslitaleik í Keflavík. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Atkvæðamestir:

Snæfell: Jeb Ivey 22 stig, Hlynur Bæringsson 20 stig, 7 fráköst.

Keflavík: Urele Igbavboa 20 stig, 11 fráköst. Sigurður Þorsteinsson 18 stig, 6 fráköst.

40. mín: LEIK LOKIÐ. Keflavík sigraði verðskuldað 82:73 og tryggði sér oddaleik á heimavelli á fimmtudaginn. 

40. mín: Staðan er 72:78 fyrir Keflavík þegar 29 sekúndur eru eftir af leiknum. Snæfell er með boltann og Ingi þjálfari þeirra tekur leikhlé.

39. mín: Staðan er 72:78 fyrir Keflavík. Bradford setti niður þriggja stiga skot sem fer langt með að tryggja Keflavík sigurinn. Ivey minnkaði muninn með því að setja niður tvö víti.

38. mín: Staðan er 70:75 fyrir Keflavík. Gunnar Einarsson var að fá sína fimmtu villu og þar með útilokun.

37. mín: Staðan er 69:75 fyrir Keflavík. Igbavboa var að skila þremur stigum eftir að Hlynur minnkaði muninn niður í þrjú stig af vítalínunni.  Gríðarlega mikilvæg stig hjá Igbavboa.

35. mín: Staðan er 64:70 fyrir Keflavík. Jón Ólafur Jónsson var að setja niður þriggja stiga skot, langt fyrir utan þriggja stiga línuna en hann hefur átt slakan leik fram að þessu. Þetta gæti kveikt í Hólmurum.

33. mín: Staðan er 61:66 fyrir Keflavík. Frumkvæðið er ennþá þeirra og Hólmarar eru ekkert sérstaklega líklegir til þess að vinna þennan leik og þar með titilinn.  Martins Berkins var að fá sína fimmtu villu og þar með útilokun.

31. mín: Staðan er 61:62 fyrir Keflavík. Hlynur var að minnka muninn niður í eitt stig og þessi síðasti leikhluti gæti orðið afar forvitnilegur. 

30. mín: Staðan er 57:60 fyrir Keflavík þegar einn leikhluti er eftir.  Hörður Axel Vilhjálmsson er sá eini sem er kominn með 4 villur en nokkrir eru með þrjár. Gunnar Einars, Sverrir Sverris og Siggi Þorsteins hjá Keflavík en hjá Snæfelli þeir Hlynur Bærings og Martins Berkis.

29. mín: Staðan er 54:57 fyrir Keflavík. Hlynur var að skila þremur stigum og Snæfell búið að minnka muninn niður í þrjú stig.

26. mín: Staðan er 46:51 fyrir Keflavík. Martins Berkis var að skora sitt fyrsta stig fyrir Snæfell í leiknum úr vítaskoti. Emil Þór er einnig farinn út af hjá Snæfelli með andlitsáverka og einnig eftir viðskipti við Hörð Axel. 

23. mín: Staðan er 41:49 fyrir Keflavík. Sigurður Þorvaldsson var að fá skurð við gagnaugað og blæðir talsvert úr. Hann var í hraðaupphlaupi og lenti í samstuði við Hörð Axel.  Gert er að sárum Sigurðar við hliðarlínuna.

22. mín: Staðan er 36:47 fyrir Keflavík sem hefur ekki náð slíkri forystu síðan í fyrsta leik liðanna. Hólmarar virðast ekki almennilega vaknaðir og lítið frumkvæði í þeirra röðum.

20. mín: Staðan er 34:40 fyrir Keflavík að loknum fyrri hálfleik. Hörður Axel Vilhjálmsson tók rispu og setti niður tvö þriggja skot undir lok hálfleiksins. Siggi Þorsteins er stigahæstur Keflvíkinga með 10 stig og Hörður er með 8.  Ivey er með 13 fyrir Snæfell. Næstur kemur Hlynur Bærings með 6 stig og 6 fráköst.   

Leikhléið er meðal annars nýtt til þess að sauma saman Jón Nordal sem mun hafa fengið skurð á andlitið. Stefnt er að því að gera hann klárann til þess að hann geti tekið þátt í leiknum í síðari hálfleik. 

18. mín: Staðan er 28:32 fyrir Keflavík. Mun meira jafnvægi í Keflavíkurliðinu eins og er. Jeb Ivey er sá eini sem er heitur hjá Hólmurum og hefur skorað 13 stig. 

16. mín: Staðan er 23:31 fyrir Keflavík. Jón Nordal Hafsteinsson var studdur af velli eftir að hafa fengið olnbogann á Jóni Ólafi Jónssyni í andlitið. Ekki var annað að sjá en að um óviljaverk væri að ræða enda voru þeir að eltast við lausan bolta.  Hugað er að Jóni utan vallar og spurning hvort hann sé nefbrotinn.

15. mín: Staðan er 23:27 fyrir Keflavík. Þröstur bætti við annari þriggja stiga körfu og nú er meðbyrinn með Keflvíkingum.  Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells tekur leikhlé. 

14. mín: Staðan er 23:24 fyrir Keflavík. Sverrir Þór Sverrisson var að koma þeim yfir í fyrsta skipti í leiknum með þriggja stiga körfu. 

12. mín: Staðan er 20:19 fyrir Snæfell. Mjög góð byrjun á öðrum leikhluta hjá Keflvíkingum. Þröstur Leó Jóhannsson setti niður þriggja stiga skot og kveikti í gestunum.  Urele Igbavboa er einnig kominn vel inn í leikinn.

10. mín: Staðan er 19:12 fyrir Snæfell að loknum fyrsta leikhluta.  Keflavík er í erfiðleikum í sóknarleiknum eins og tölurnar sýna og þeir hafa ekkert fengið frá Bradford enn sem komið er. Jeb Ivey er kominn með 8 stig hjá Snæfelli.

7. mín: Staðan er 13:8 fyrir Snæfell. Sigurður Þorsteinsson byrjar vel hjá Keflavík og hefur skorað 6 stig. 

5. mín: Staðan er 10:4 fyrir Snæfell. Keflavík byrjar í svæðisvörn sem er hættulegt gegn liði eins og Snæfell sem er með margar skyttur. Jeb Ivey og Sigurður Þorvaldsson eru báðir búnir að setja niður þriggja stiga skot. 

2. mín: Staðan er 4:0 fyrir Snæfell. Jeb Ivey og Emil Þór Jóhannsson eru komnir á blað. Nick Bradford er strax kominn með villu. 

Sigmundur Már Herbertsson og Rögnvaldur Hreiðarsson munu annast dómgæslu. 

Bæði liðin stilla upp öllum sínum sterkustu leikmönnum fyrir utan þá Draelon Burns Keflavík og Sean Burton Snæfelli sem eru meiddir. Eins og kunnugt er voru þeir Nick Bradford og Jeb Ivey fengnir til þess að leysa þá af hólmi. 

Stemningin er gríðarlega í húsinu og húsið var orðið fullt um klukkutíma fyrir leik. Stuðningsmenn Snæfells syngja og tralla enda titill í húfi. 

Keflvíkingar unnu fyrsta leikinn í Keflavík en Snæfell jafnaði metin í Stykkishólmi og náði forystunni í þriðja leiknum í Keflavík. 

Jón Nordal studdur af leikvelli.
Jón Nordal studdur af leikvelli. mbl.is/hag
Sigurður Þorvaldsson Snæfelli og Nick Bradford Keflavík.
Sigurður Þorvaldsson Snæfelli og Nick Bradford Keflavík. mbl.is/hag
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert