„Pálmi angaði af kaupstaðarlykt“

Hlynur fagnar í örmum félaga sinna eftir að sigurinn var …
Hlynur fagnar í örmum félaga sinna eftir að sigurinn var í höfn. mbl.is/hag

Hlynur Bæringsson, fyrirliði Snæfells úr Stykkishólmi, var búinn að bíða lengi eftir því að hampa Íslandsbikarnum í körfuknattleik karla. Biðinni lauk í Keflavík í kvöld þar sem Snæfell burstaði Keflavík 105:69 í oddaleik. 

Eftir ýmis vandamál vegna meiðsla í leikmannahópi Snæfells á leiktíðinni þá er liðið engu að síður orðið tvöfaldur meistari. Mbl.is spurði Hlyn hver vendipunkturinn hefði verið á tímabilinu.

„Ég myndi segja að það hafi verið þegar Pálmi Freyr Sigurgeirsson kom óvart til baka úr meiðslum. Pálmi átti að vera meiddur í sex mánuði, stalst í bæinn og kom til baka í Hólminn angandi af kaupstaðarlykt. Hann hafði verið greindur með brjósklos en hann læknaðist skyndilega eftir bæjarferðina. Þá áttaði ég mig á því hvað við vorum komnir með rosalega breidd því við höfðum fengið Martins Berkis til okkar af því að Pálmi var meiddur. Þá vorum við komnir með massíft lið. Fram að því var ég ekki alveg viss um að við gætum farið alla leið en eftir að þeir voru báðir komnir inn í þetta fór ég að hugsa um titilinn,“ sagði Hlynur í samtali við mbl.is.

Hlynur sagði marga starfa á bak við félagið og hafa lagt hönd á plóg. „Ég vona að þetta geri mikið fyrir bæjarfélagið. Það eru alveg ofboðslega margir sem hafa hjálpað okkur að ná þessum áfanga. Það eru forréttindi að geta bara mætt á æfingar og haft gaman að þessu, vegna þess að fólk leggur á sig vinnu fyrir okkur í sjálboðavinnu. Þetta fólk dekrar við okkur og á heiður skilinn. Ég vona að þau njóti sigursins eins og við,“ sagði Hlynur. 

Nánar er rætt við Hlyn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert