San Antonio Spurs og Phoenix Suns eru komin í undanúrslit Vesturdeildar NBA í körfuknattleik. Bæði lið tryggðu sér í nótt 4:2 sigur í einvígjum sínum við Dallas Mavericks og Portland Trail Blazers, San Antonio á heimavelli og Phoenix á útivelli.
San Antonio lagði Dallas í slag Texasliðanna, 97:87, og lagði grunninn að sigrinum með því að komast í 22:8 í fyrsta leikhluta. Liðið náði um tíma 22ja stiga forystu í fyrri hálfleiknum en Dallas beit heldur betur frá sér, vann þann mun upp og náði forystunni þegar langt var liðið á þriðja leikhluta, áður en San Antonio gerði út um leikinn með góðum endaspretti.
Manu Ginobili skoraði 26 stig fyrir San Antonio en Dirk Nowitzki fór hamförum fyrir Dallas í seinni hálfleik, skoraði þá 25 stig og 33 alls í leiknum.
Phoenix vann sigur í Portland, 99:90, eftir harðan slag en var þó með undirtökin lengst af. Skotbakvörðurinnn Jason Richardson átti þar þriðja stórleikinn í sex leikjum liðanna en hann skoraði 28 stig og tók 7 fráköst. Martell Webster skoraði 19 stig fyrir Portland.
Það verða Phoenix og San Antonio sem mætast í undanúrslitum Vesturdeildar og fer fyrsti leikur liðanna fram aðfaranótt þriðjudags.