Phoenix Suns sigraði San Antonio Spurs 110:102 í nótt í
undanúrslitum Vesturdeildar í NBA deildinni í körfubolta. Staðan er 2:0 fyrir Suns en það lið sem fyrr
vinnur fjóra leiki kemst í úrslit Vesturdeildar gegn LA Lakers eða Utah Jazz.
Forráðamenn Phoenix mótmæltu nýjum innflytjendalögum í Arizona fylki með því að
láta liðið leika í búningum með merkingunni „Los Suns“ í stað félagsmerkisins.
Amare Stoudemire skoraði 23 stig og tók 11 fráköst í liði „Los Suns“ í nótt og Channing Frye skoraði 5 þriggja stiga körfur úr 6 tilraunum. Steve Nash skoraði 19 stig líkt og Jason Richardson í liði Phoenix. Grant Hill skoraði 18.
Tim Duncan skoraði 29 stig og tók 10 fráköst í liði San Antonio, Richard Jefferson skoraði 18 og tók 10 fráköst, franski landsliðsmaðurinn Tony Parker skoraði 20. Næstu tveir leikir fara fram á heimavelli San Antonio.