Magnaður útisigur Boston gegn Cleveland

Daniel Gibson hjá Cleveland og Ray Allen hjá Boston teygja …
Daniel Gibson hjá Cleveland og Ray Allen hjá Boston teygja sig eftir boltanum í leiknum í nótt. Reuters

Boston Celtics er komið í lykilstöðu í undanúrslitum Austurdeildar NBA eftir glæsilegan útisigur á Cleveland Cavaliers, 120:88, í nótt. Boston er þar með komið í 3:2 og fær tækifæri til að gera útum einvígið á sínum heimavelli.

Lykilmenn Boston skiluðu allir sínu. Ray Allen skoraði 25 stig, Paul Pierce skoraði 21 og tók 11 fráköst, Kevin Garnett skoraði 18 stig og Rajon Rondo skoraði 16 stig og átti 7 stoðsendingar. Þá kom Glen Davis sterkur af bekknum og skoraði 15 stig.

Pierce átti auk þess stórleik í vörninni þar sem hann hélt hinum annars óstöðvandi LeBron James í skefjum. James var ólíkur sjálfum sér, hitti aðeins úr 3 af 14 skotum utan af velli og  gerði ekki nema 15 stig. Shaquille O'Neil skoraði 21 stig fyrir Cleveland sem er nú heldur betur komið með bakið uppvið vegg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert