Boston Celtics er komið í úrslit Austurdeildar NBA í körfuknattleik eftir sigur á Cleveland Cavaliers, 94:85, á heimavelli í nótt. Boston vann þar með einvígi liðanna 4:2 og mætir Orlando Magic í úrslitunum.
Boston náði undirtökunum í einvíginu, mörgum að óvörum, með stórsigri í fimmta leiknum í Cleveland fyrr í vikunni og nýtti síðan tækifærið á sínum heimavelli í nótt til fullnustu.
Kevin Garnett skoraði 22 stig og tók 12 fráköst, og skipti engu þó tröllið Shaquille O'Neal væri sett honum til höfuðs til að reyna að halda honum niðri. Rajon Rondo átti 12 stoðsendingar fyrir Boston.
Stórleikur hjá LeBron James dugði Cleveland ekki en hann skoraði 27 stig, tók 19 fráköst og átti 10 stoðsendingar - náði semsagt þrefaldri tvennu. Þar með gæti hann hafa spilað sinn síðasta leik fyrir Cleveland, James er með lausan samning í sumar og hefur ekkert gefið upp um fyrirætlanir sínar.
Einvígi Orlando og Boston hefst á sunnudagskvöldið en sólarhring síðar mætast LA Lakers og Phoenix í fyrsta leik sínum í úrslitum Vesturdeildar.