Ólafur kjörinn forseti FIBA Europe

Ólafur Rafnsson er nýr forseti FIBA Europe.
Ólafur Rafnsson er nýr forseti FIBA Europe. mbl.is/Brynjar Gauti

Ólafur Rafnsson, forseti ÍSÍ, var í morgun kjörinn forseti Körfuknattleikssambands Evrópu, FIBA Europe, þegar hann sigraði Turgay Demirel frá Tyrklandi, 32:19, í forsetakjöri á ársþingi sambandsins í München.

Körfuknattleikssamband Íslands sendi frá sér fréttatilkynningu um kjörið rétt í þessu og þar er haft eftir Ólafi:

„Ég er þakklátur fyrir þennan góða stuðning sem ég fékk í þessu kjöri og þann heiður og það traust sem forystumenn körfuknattleikssambandanna innan Evrópu sýna mér. Enn fremur þann stuðning sem ég hef fundið fyrir á Íslandi. Ég er meðvitaður um þá miklu ábyrgð sem falin er í þessu embætti og hlakka til að takast á við þau verkefni sem framundan eru." 

„Þetta er númer  eitt mikill persónulegur sigur fyrir Ólaf að hljóta jafn glæsilega kosningu og raun varð sem og er þetta að sjálfsögðu  sigur fyrir körfuboltann á Íslandi og íþróttahreyfingunna alla. Þetta var barátta sem við vissum að Ólafur gæti unnið því hann nýtur mikillar virðingar innan alþjóða körfuboltans og með þessum sigri Ólafs hefur verið skrifaður nýr kafli í íslenska íþróttasögu" segir Hannes S.Jónsson formaður KKÍ í sömu tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert