Stórleikur Stoudamire og sigur á Lakers

Amare Stoudemire skorar framhjá Pau Gasol í leiknum í nótt.
Amare Stoudemire skorar framhjá Pau Gasol í leiknum í nótt. Reuters

Phoenix Suns komst inn í einvígið gegn Los Angeles Lakers í úrslitum Vesturdeildar NBA með góðum sigri á heimavelli í nótt, 118:109. Amare Stoudemire átti stórleik og skoraði 42 stig. Þar með hefur forysta Lakers minnkað í 2:1 í leikjum liðanna og verður fjórði leikurinn í Phoenix á þriðjudagskvöld augljóslega mikilvægur.

Phoenix fékk þrjá daga til að undirbúa fyrsta heimaleik sinn í einvíginu og á þeim tíma ákvað þjálfari Suns, Alvin Gentry, að breyta um varnaraðferð gegn Lakers – enda hafði varnarleikur Suns verið slakur í fyrstu tveimur leikjunum.

Þetta virkaði vel gegn Lakers, því svæðisvörnin sem Gentry setti upp sló Lakers út af laginu. Fyrir það fyrsta hægði þetta á sóknarleik Lakers og þar ofaná virtust Lakers-menn hæstánægðir með að skjóta utan af velli sókn eftir sókn.

Lakers tók 32 þriggja stiga skot og hitti aðeins úr níu. Það mun ekki nægja á útivelli gegn Phoenix.

Stóri munurinn fyrir Phoenix í sóknarleiknum var frábær leikur Amare Stoudamire, sem skoraði 42 stig og tók 11 fráköst. Steve Nash, sem nefbrotnaði enn aftur, var að venju traustur með 17 stig og 15 stoðsendingar. Suns áttu fyllilega þennan sigur skilið og ákefðin gerði það að verkum að liðið fékk 42 vítaskot sem skiluðu 37 stigum.

Kobe Bryant var allt í öllu hjá Lakers eins og venjulega með 36 stig, 11 stoðsendingar og 9 fráköst.

„Við áttum von á því að Amare myndi mæta af miklum eldmóð í leikinn eftir að hafa átt það erfitt í fyrstu tveimur leikjunum. Nú verðum við að reyna að svara því í næsta leik," sagði Bryant á blaðamannafundi eftir leikinn.

Hér er það fjórði leikurinn sem gerir út um það hvort þetta endar í fimmta leiknum á fimmtudag, eða dregst á langinn fram um næstu helgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert