Kobe Bryant átti enn einn stórleikinn með Los Angeles Lakers í úrslitaleikseríu Vesturdeildar NBA í nótt. Í sjötta leik Lakers gegn Phoneix Suns á útivelli setti Bryant 37 stig og tryggði liðinu sigur í lokaleikhlutanum þegar útlit var fyrir að Phoenix væri að jafna leikinn – og þar með kannski leikseríuna sjálfa.
Bryant tók af skarið á síðustu þremur mínútunum þegar Phoenix hafði minnkað 18 stiga mun Lakers í þrjú stig, en hann skorað tvær hreint ótrúlegar körfur til að innsigla sigur Lakers, 111:103. Lakers vann þar með leikseríuna 4:2 og mætir því erkifjendunum í Boston í lokaúrslitunum.
Í seinni hálfleiknum virtist sem að Lakers ætluðu sér stórsigur, en eftir að Slóveninn Sasha Vujacic reisti handlegg sinn í andlit landa síns Goran Dragic, með viðeigandi tveimur vítaskotum og vald á knettinum, snerist leikurinn og andrúmsloftið í American Airlines höllinni algerlega við.
Phonenix skoraði sextán af næstu tuttugu stigum leiksins og var allt í einu með allan byrinn. Allavega þar til Bryant þaggaði í partíinu.
Phoenix gerði allt rétt í að verja skot Bryant í lokin, en án árangurs. „Það er ekki hægt að verja þessi skot Bryant betur en við gerðum í kvöld. Hann er einfaldlega besti leikmaðurinn í deildinni," sagði Alvin Gentry, þjálfari Phoenix í leikslok. Við þetta er lítið að bæta.
Lakers sýndi í þessum leik að þær vonir sem bundnar voru í liðinu fyrir keppnistímabilið reyndust réttar. Ekkert lið náði svo mikið sem að koma liðinu í sjöunda leikinn í úrslitkeppninni.
Lakers – Celtics
Með sigrinum tryggði Lakers sér einn eitt stríðið við Boston Celtics – erkifjandann – í lokaúrslitunum, eftir að Boston vann auðveldan sigur á Orlando Magic í úslitarimmu Austurdeildarinnar á föstudag, 96:84. Boston vann þá leikseríuna 4:2 og var einnig á endanum besta lið austan megin.
„Við fáum nú að sjá hvort við höfum þroskast sem lið frá síðustu viðureign okkar. Þeir gerðu okkur lífið leitt þá," sagði Kobe Bryant þegar hann var inntur eftir minningu sinni frá því fyrir tveimur árum.
Fyrsti leikur liðanna fer fram á fimmtudag og bíða eflaust margir körfuboltaeðjótar spenntir eftir enn einum slagnum hjá þessu sögufrægu liðum. Við hér á Morgunblaðinu spáum í þá keppni þegar nær líður.