Jón Ólafur Jónsson hefur lengi verið einn skemmtilegasti leikmaður Snæfells í úrvalsdeildinni í körfubolta. Nonni Mæju eins og hann er kallaður er fyrir löngu orðinn að skrásettu vörumerki í Hólminum og verður hér eftir ekki notast við annað nafn í þessu greinarkorni, en Morgunblaðið sló á þráðinn til Nonna og heyrði í honum hljóðið.
„Þegar menn komust yfir þetta fjall síðasta vor, sem Íslandsmeistaratitilinn hafði verið fyrir okkur, þá hefur áhuginn á liðinu aukist enn meira. Það er mjög mikil stemning í bænum og á svæðinu eins og verið hefur undanfarin ár. Þrátt fyrir að hafa misst mikið þá erum við engu að síður með þokkalegan leikmannahóp,“ sagði Nonni, spurður um hvernig stemningin væri í kringum meistaraliðið. Hann getur þó ekki neitað því að breytingarnar á milli tímabila eru miklar að þessu sinni.
„Það sem af er tímabilinu höfum við kannski skotið fullmikið fyrir utan þriggja stiga línuna en við erum náttúrlega með margar byssur í liðinu. Það er nú ekkert sérstakt áhyggjuefni. Við erum að læra hver inn á annan og smám saman munum við ná meira jafnvægi í okkar leik þannig að við séum bæði ógnandi inni í teig og fyrir utan,“ útskýrði Nonni.
Í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag er rætt nánar við Jón Ólaf og fjallað ítarlega um meistaralið Snæfells.