Orlando vann Flórídaslaginn

Mickael Pietrus og Dwight Howard fagna sigri Orlando á Miami …
Mickael Pietrus og Dwight Howard fagna sigri Orlando á Miami í nótt en Dwyane Wade gengur dapur af velli. Reuters

Orlando Magic vann í nótt sætan sigur á Miami Heat, 104:95, í nágrannaslag Flórídaliðanna í NBA-deildinni í körfuknattleik. San Antonio Spurs þurfti framlengingu til að vinna 12. sigurinn í röð, 113:109 gegn Minnesota Timberwolves á útivelli.

Dwight Howard átti stórleik með Orlando en hann skoraði 24 stig og tók 18 fráköst. Jameer Nelson átti 14 stoðsendingar fyrir liðið, persónulegt met hjá honum, og skoraði 8 mikilvæg stig á lokakafla leiksins. LeBron James skoraði 25 stig fyrir stjörnum prýtt lið Miami sem tapaði í sjöunda skipti í fyrstu 15 leikjum sínum.

San Antonio vann upp ellefu stiga forskot í fjórða leikhluta gegn Minnesota og jafnaði metin í 106:106. Allt stefndi í að Minnesota ynni sinn fyrsta sigur í 13 viðureignum liðanna en Manu Ginobili hefur oft verið Trjáúlfunum erfiður og hann gerði útslagið í nótt, skoraði 26 stig. Tim Duncan tók 13 fráköst. Kevin Love var frábær í liði  Minnesota en hann skoraði 32 stig og tók 22 fráköst.

Dirk Nowitzki skoraði 34 stig fyrir Dallas Mavericks sem vann góðan útisigur á Oklahoma City Thunder, 111:103. Kevin Durant skoraði 32 stig fyrir Oklahoma. Dallas skoraði 36 stig gegn 22 í fjórða leikhluta.

Chicago lagði Phoenix, 123:115, eftir tvær framlengingar á útivelli. Derrick Rose skoraði 35 stig fyrir Chicago, fimm þeirra í seinni framlengingunni.

Úrslitin í nótt:

Charlotte - New York 95:99
Cleveland - Milwaukee 83:81
Toronto - Philadelphia 106:90
Boston - New Jersey 89:83
Orlando - Miami 104:95
Memphis - Detroit 105:84
Minnesota - San Antonio 109:113 (framlenging)
Oklahoma City - Dallas 103:111
Houston - Golden State 111:101
Phoenix - Chicagao 115:123 (2 framlengingar)
Utah - New Orleans 105:87

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert