Meistarar Los Angeles Lakers töpuðu í nótt sínum fjórða leik í röð í NBA-deildinni í körfuknattleik, 109:99 í Houston, og það hefur ekki gerst í tæp fjögur ár.
Houston gerði út um leikinn í fjórða leikhluta þegar liðið skoraði 33 stig gegn 21 hjá Lakers. Þar var Shane Battier í aðalhlutverki en hann skaut Lakers hreinlega í kaf á síðustu þremur mínútum leiksins þegar hann gerði 11 stig, af þeim 17 sem hann skoraði í leiknum. Kevin Martin skoraði 22 stig fyrir Houston en Kobe Bryant var stigahæstur hjá Lakers með 27 stig.
Boston Celtics lagði Portland Trail Blazers að velli, 99:95, þar sem Paul Pierce skoraði 28 stig fyrir heimamenn en það var Ray Allen sem tryggði sigurinn með þriggja stiga körfu í lokin. Wesley Matthews skoraði 23 stig fyrir Portland. Fimmti sigur Boston í röð og fimmta tap Portland í röð.
Oklahoma City Thunder þurfti þrjár framlengingar til að sigra New Jersey Nets á útivelli, 123:120. Russell Westbrook átti stórleik með Oklahoma en hann gerði 38 stig, tók 15 fráköst og átti 9 stoðsendingar.
LeBron James skoraði 18 stig fyrir Miami Heat sem vann Detroit Pistons örugglega, 97:72.
Botnlið LA Clippers lagði topplið San Antonio Spurs, 90:85, þar sem Blake Griffin skoraði 31 stig fyrir Clippers og tók 13 fráköst.
Úrslitin í nótt:
Atlanta - Memphis 112:109
New Jersey - Oklahoma City 120:123 (eftir þrjár framlengingar)
Toronto - Washington 127:108
Boston - Portland 99:95
Miami - Detroit 97:72
Chicago - Orlando 78:107
New Orleans - Charlotte 89:73
Dallas - Minnesota 100:86
Houston - LA Lakers 109:99
Denver - Milwaukee 105:94
Utah - Indiana 110:88
LA Clippers - San Antonio 90:85