Derek Fisher var hetja LA Lakers þegar liðið marði granna sína í LA Clippers, 87:86, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt. Fisher skoraði sigurkörfuna á lokasekúndunum og tryggði liði sínu þriðja sigurinn í röð.
Kobe Bryant var stigahæstur í liði Lakers með 24 stig og hjá Clippers, sem hefur tapað fimm af síðustu sjö leikjum sínum, var Eric Gordon atkvæðamestur með 24 stig.
Boston átti ekki í vandræðum með Denver en liðð landaði öruggum sigri 105:89. Ray Allen skoraði 28 stig fyrir Boston og þeir Paul Pierce og Kevin Garnett voru með 17 stig hver í áttunda sigurleik liðsins í röð. Ty Lawson skorað 24 stig fyrir Denver.
LeBron James átti stórleik fyrir Miami sem vann sinn sjötta sigur í röð þegar það lagði Utah að velli, 111:98. James skoraði 33 stig, átt 9 stoðsendingar og tók 7 fráköst. Dwyane Wade kom næstur með 28 stig. Al Jefferson skoraði 25 stig fyrir Utah og tók 11 fráköst.
,,Þetta var góður sigur liðsheildarinnar. Ekki bara í vesturdeildinni heldur í allri deildinni. Það var fínn kraftur í liðinu,“ sagði LeBron James eftir sigurinn.
Raymond Felton tryggði New York sigur gegn Toronto, 113:110, með þriggja stiga körfu rétt fyrir leikslok. Amare Stoudemire fór mikinn í liði New York en kappinn skoraði 34 stig og tók 14 fráköst. Andrea Bargnani setti niður 41 stig fyrir Toronto.
Úrslitin í nótt:
Boston - Denver 105:89
Toronto - New York 110:113
Oklahoma - Minnesota 111:103
SA Spurs - Golden State 111:94
Miami - Utah 111:89
LA Lakers - LA Clippers 87:86
Chicago - Cleveland 88:83
Indiana - Milwaukee 95:97
New Orleans - Detroit 93:74
Memphis - Phoenix 104:98
Sacramento - Washington 116:91