Chicago Bulls lagði meistara Los Angeles Lakers að velli, 88:84, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt. George Karl þjálfari Denver fagnaði 1.000 sigrinum á ferlinum og Miami hélt áfram sigurgöngunni og vann sjöunda leikinn í röð.
Slæm byrjun Chicago, þar sem liðið var 12:22 undir eftir fyrsta leikhluta, kom ekki að sök gegn meisturunum. Derrick Rose skoraði 29 stig fyrir Chicago en Kobe Bryant 23 fyrir Lakers. Þetta var fyrsti sigur Chicago á Lakers í átta leikjum frá árinu 2006.
Miami hefur heldur betur hrokkið í gang eftir erfiðleika til að byrja með og vann Golden State á útivelli af miklu öryggi, 106:84. Dwyane Wade var í aðalhlutverki að þessu sinni en hann skoraði 34 stig, átti 7 stoðsendingar og tók 9 fráköst. LeBron James var með 25 stig, 9 stoðsendingar og 7 fráköst. Þar með hefur Flórídaliðið nú unnið siðustu sjö leiki sína.
Hinn þrautreyndi George Karl fór með sína menn í Denver Nuggets til Kanada og þar lögðu þeir Toronto Raptors, 123:116. Þar vann hann 1.000. sigur sinn í deildinni og er sjöundi þjálfarinn í sögu hennar sem nær því marki. Karl, sem er 59 ára, hefur þjálfað í deildinni frá 1984, nema hvað hann stjórnaði liði Real Madrid í þrjú ár. Hann hefur þjálfað Denver frá 2005.
Úrslitin í nótt:
Indiana - Charlotte 100:92
Toronto - Denver 116:123
Washington - New York 95:101
Chicago - LA Lakers 88:84
Minnesota - Detroit 109:99
New Orleans - Oklahoma 92:97
Milwaukee - Houston 97:91
San Antonio - Atlanta 108:92
Phoenix - Portland 94:101
Utah - Orlando 117:105
Golden State - Miami 84:106